Ónýt króna

Ég hef alltaf verið eindreginn stuðningsmaður VG og fylgt þeim ágæta flokki í gegnum súrt og sætt. Hef ég gert það sökum þess að mestur samhljómur er í mínum skoðunum og þess sem flokkurinn hefur upp á að bjóða í stefnu sinni. Að sjálfsögðu kemur fyrir að skoðanir flokksmanna eru ekki samræmdar í stórum málum, og er þá reynsla mín hingað til sú að rætt er um hlutina og ákvörðun tekin út frá þeim umræðum sem eiga sér stað. Nákvæmlega eins og á að vinna hlutina innan flokka sem vilja vinna eftir lýðræðislegum hefðum. Svo er hitt annað mál að einstaklingar eru missterkir og hafa mismikil áhrif með málflutningi sínum. Annað væri óeðlilegt.

Eitt þeirra mála sem samstaða hefur verið um innan flokksins er að við Íslendingar skulum standa fyrir utan ES og halda í okkar krónu. Fram til þessa hefur það líka verið sjálfsagður og eðlilegur hlutur í mínum augum. Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki að því gert að ég er farinn að hugleiða aðra kosti. Ég líkt og flestir aðrir Íslendingar er að reyna að koma mér þaki yfir höfuðið, er með mín kreditkort, yfirdráttarheimildin í botni og í alla staði mjög virkur þátttakandi í neyslunni. Þetta gildir að ég held um stóran hluta þjóðarinnar, og því er staða mín ekki ósvipuð og hjá öðrum.

Nú eftir síðustu fréttir af því að vextir af íbúðalánum eigi að vera og séu orðnir um 6,5 til 7,5%, fyrir utan verðtrygginguna sem er gífurleg í bullandi verðbólgu eins og verið hefur um langt skeið, hlýtur maður að spyrja sig hvort ekki sé nóg komið svo að fastar sé ekki að orði kveðið. Yfirdráttarvextir eru um 20%, og ef ég fer ekki með fleipur minnir mig að vextir á kreditkortunum séu svipaðir. Venjuleg skuldabréfalán eru svo með vaxtaprósentu upp á 12-15% og verðtryggð þar að auki. Ef hér væri gjaldmiðill sem heitir Evra, eða krónan a.m.k. fastbundin gengi hennar, væri vaxtaprósentan önnur og lægri en okkur er boðið upp á í dag. Ég veit það að almenn lán á Evrusvæðinu bera 4,5% vexti og þá óverðtryggð. Húsnæðislán bera svo lægri vexti. Þessi vaxtamunur hefur í för með sér að af tuttugu milljón króna láni eru íslenskir lántakar að greiða a.m.k. 400.000kr. meira á ári af húsnæði sínu en fólk í svipaðri stöðu í Evrópu, og þá er ekki talið með verðbæturnar og vextirnir af þeim. Enn hrikalegri er þessi munur ef borin væru saman önnur lán.

Í mínum huga er ekki neinum vafa undirorpið að efnahagsstefna undanfarinna ára á stóran þátt í þeirri gífurlegu vaxtabyrði sem lögð er á venjulegt fólk. Það er einnig deginum ljósara að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur ekki neina getu til að bæta ástandið, a.m.k. hefur hún ekki sýnt neina tilburði í þá átt hingað til. Því er það stóra spurningin sem við almenningur stöndum frammi fyrir núna hvort við höfum einfaldlega efni á að bíða lengur eftir betri tíð með blóma í haga.

Ég tel svo ekki vera. Sú umræða hlýtur að verða tekin upp í VG hvort hag okkar almennings sem flokkurinn minn berst fyrir sé betur komið innan ES eða utan, og ekki síður sú umræða hvort það sé ekki til þess vinnandi til að taka annað hvort upp Evruna sem gjaldmiðil eða fasttengja krónuna henni, svo almenningur geti staðið undir skuldbindingum sínum.


Á refilstigum

Á dögunum komst yngsti meðlimur þeirra er hafa heimilisfesti hér á Ægisíðu undir mannahendur. Því er ekki að neita að okkur hinum brá töluvert við þetta og hétum því að ala viðkomandi betur upp, enda smán að því fyrir fjölskylduna að þetta skyldi henda.

 

Þar sem við erum opin og líberal í uppeldinu, þá höfðum við forráðamennirnir ekki miklar áhyggjur af því þótt þessi fjölskyldumeðlimur skilaði sér ekki heim um nóttina eins og hann er vanur. Um morguninn vorum við þó farin að hugleiða hvað gæti hafa komið fyrir, en þar sem við erum frekar frjálslynd og treystum okkar fjölskyldumeðlimum til að lenda ekki á refilstigum voru áhyggjurnar ekki miklar. Seinna um daginn var svo hringt í spúsu mína og hún spurð að því hvort hún væri A Hansen. Þar sem hann Hansen minn er eyrnamerktur samkvæmt  reglugerð frá borginni gátu starfsmenn Kattholts fundið út í hvaða símanúmeri helst væri hægt að ná í forráðamann hans ef í nauðir ræki.

 

Á heimasíðu Kattholts stóð að umræddur köttur væri gulbröndótt læða sem fundist hefði á Ægisíðunni. Nú er það svo að veiðimaður á vegum borgarinnar veiddi köttin í búr með s.k. felliloki, svo að í sjálfu sér týndist Hansen aldrei. Sama veiðimanni er nokkur vorkun í því að hafa kyngreint Hansen ranglega, en í einni ferð minni til Síberíu greip kona mín til þess óyndisúrræðis að gelda ræfilinn, eða að láta gelda hann öllu heldur því ekki gerði hún það sjálf.

 

Lét hún gera þetta þrátt fyrir að ég hefði lagt blátt bann við því og skýrskotað til þess að ég væri húsbóndi á mínu heimili og að orð mín væru lög öðrum lögum æðri. Reyndar held ég að þessi verknaður hafi ekki beinst einvörðungu gegn kettinum, heldur einnig verið e.k. ábending til mín og míns tals um húsbóndavald. Eftir voðaverk þetta hef ég líka verið afskaplega rólegur og tillitssamur. Og skyldi engan undra.

 

Þegar við leystum Hansen út þurftum við að greiða 5.800kr. Af þeirri upphæð fékk Kattholt heilar 800kr., en borgin hélt eftir 5.000kr. Væntanlega til að geta greitt fyrir fleiri felligildrur, sem aftur verður til þess að fleiri kettir verða fangaðir.

 

Það sem Hansen hafði brotið af sér var að hafa þvælst inn í garð hjá einhverri vesalings konu, ásamt Pésa vini sínum sem var nappaður við sama tækifæri, og væntanlega borið á eitthvert beð frúarinnar. Þessi húsmóðir í Vesturbænum hefur vonandi átt rólega og góða nótt undir hlýrri sæng á meðan kattarkvikindin hýrðust úti í rigningunni, innilokaðir í búrum sínum.

 

Það er hreint með ólíkindum hvað fólk hefur lítið fyrir stafni ef það nennir að ergja sig yfir nokkrum heimilisköttum hérna vestur í bæ. Og ekki er það síður merkilegt að borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar skuli nenna að eltast við sílspikaðar kisur á næturrölti. Því ekki væri þetta hægt án þeirra atbeina. Það eru reglugerðir um merkingar á eyrum, þeir örmerktir líkt og um Orra frá Þúfu væri að ræða og þeir skráðir í bak og fyrir. Í sjálfu sér er það hið besta mál að kettir skuli skráðir og að eigendum þeirra beri skylda til að hugsa vel um þá, fara með þá til dýralæknis í pillur og sprautur og sjá til þess að þeim líði vel.

 

En að samþykkja reglur um lausagöngu katta, gera út veiðimenn á heimilisketti og annað í þeim dúr er farið að ná langt út yfir það sem eðlilegt getur talist.

 

Er nema von að núverandi forseti borgarstjórnar vilji fjölga borgarfulltrúum ú 15 í 21 sökum mikilla anna.


Velkomin heim

Kom loksins heim frá Síberíu síðdegis s.l. föstudag. Því verður ekki neitað að það er einkar viðkunnanlegt þegar flugfreyjan segir þegar vélin er lent ,,Velkomin heim''. Hef það til siðs í vélinni heim að belgja mig út af íslensku vatni, sem er að sjálfsögðu það besta í heimi. Á hinn bóginn eru kartöfluteningarnir með skinkulufsunni sem farþegum er boðið upp á hinn versti kostur. Í hvert sinn sem ég sé þessa helv.... hörmung hvarflar að mér að gerast flugdólgur af verstu sort. Læt mig þó hafa það að éta óskapnaðinn með hálfgerðum hundshaus. Er kannski orðinn góðu vanur eftir flugferðir með tveimur vélum frá Airoflot.

Þar er hægt að velja á milli kjúklings og/eða nautakjöts og fisks. Í forrétt getur maður etið kalda kalkúnabringu með fersku grænmeti, ostur er borinn fram með brauði og smjöri og ávaxtatuffle er svo í eftirrétt ásamt te eða kaffi. Ekki svo afleitur málsverður. Því verður kartöflubixíið hjá Icelandair hálf svona þreytt eftir að hafa fengið það í hverri ferð s.l. þrjú ár. Mál til komið að kokkurinn fari á endurmenntunarnámskeið.

 Er annars að fara að einangra draumahöllina svo hún fái fokheldisvottorð. Ætla mér að klára það af á sem skemmstum tíma náttúrulega. Ekki svo glæsilegt að hafa öll lánin á svimandi háum vöxtum, sem lækka svo þegar húsið er orðið fokhelt og þar með veðhæft. Átta mig ekki alveg á því af hverju hús getur ekki verið veðhæft án þess að það sé orðið fokhelt, því sömu verðmætin hljóta að liggja í þeim framkvæmdum sem búnar eru hvort sem einangrun er komin eða ekki.

 Íslenskir flugvélamatskokkar eru e.t.v. ekki þeir bestu í heimi, en á móti kemur að bankarnir kunna að reikna sér vexti í þágu sömu eigenda að flugfélögum og bönkum.


Af hoppurum, sóti og skít

 Verksmiðja vor hér úti í Síberíu framleiðir s.k. rockhoppara, gúmmídiska sem notaðir eru á botnvörpur. Hoppa s.s. yfir urð og grjót þegar trollið er dregið eftir sjávarbotninum. Nú hafa margir spurt mig þeirrar spurningar hvernig í ósköpunum standi á því að framleiðslan skuli vera best komin 3.000 km. frá sjó. Því er til að svara að dekkin sem notuð eru í framleiðsluna vega hvert um sig u.þ.b. 2,5 til 5 tonn, og eru þau dekk sem til falla héðan frá námunum því upplögð til framleiðslunnar, en hver rockhoppari getur orðið meira en metri í þvermál og þyngdin alveg upp í 80 kg. Það eru því engir venjulegir hjólbarðar sem henta í framleiðslu sem þessa. 

Kolanámurnar hér um slóðir eru líklega með þeim stærstu sem þekkjast. Flestar eru s.k. opnar námur, en þá er jarðvegi mokað ofan af kolalögum, síðan aftur jarðvegi ofan af næstu kolalögum þar fyrir neðan og svo koll af kolli. Ég hef heimsótt nokkrar svona námur, og verður að segjast eins og er að manni finnst maður hálf lítill innan um vélar sem eru að moka upp undir 45 tonnum í einni skóflu og vörubíla sem eru að flytja þetta 80 til 120 tonn í ferð. Svo eru sprengi- og mælingasveitir út um allar koppagrundir við iðju sína, og þá er ótalið allt það rask á náttúru sem svona aðfarir hafa í för með sér. T.d. heimsótti ég eina námu sem er í smærri kantinum, en engu að síður var umfang uppgraftrarins slíkt, að ef við ímyndum okkur að Elliðaárdalurinn hefði einhvern tíman verið á jafnsléttu, væri búið að grafa hann upp og flytja allan jarðveginn til.

 

Kolin sjálf fara svo í flokkun, sum henta best til raforkuframleiðslu, önnur til stálbræðslna, húshitunar o.s.frv. o.s.frv. Stór hluti þeirra fer svo með lestum áleiðis til annarra landa, s.s. Finnlands og Tyrklands, þar sem þau eru notuð til iðnaðarframleiðslu og húshitunar. Ég var fyrir nokkrum árum í Helsinki og sá þá raforkuver úr fjarlægð, en þar voru vélskóflur á stöðugum þönum með kol í ofnana. Reikna með að þau hafi verið héðan.

 

Þessu fylgir að sjálfsögðu meiri mengun en einungis sjónmengun. Kolaryk og sót frá hinum ýmsu verksmiðjum fylgir með í kaupunum, og auðvelt er að gera sér grein fyrir að mikið magn kola þarf til kyndingar og hitunar á vatni þegar frostið fer niður í -45 til -50 gráður á vetrum og getur verið viðvarandi fyrir neðan -30 stig vikum saman. Nú sækjast íbúarnir hérna ekkert sérstaklega eftir því að anda að sér ósköpunum, en verða nú eins og gefur að skilja að láta sig hafa það samt. Hérna er stöðugt verið að vinna að betri mengunarvörnum, en margar þeirra verksmiðja sem hér eru myndu ekki uppfylla þær kröfur sem við gerum til slíkra hluta. Nýjar verksmiðjur verða reyndar að uppfylla miklu strangari kröfur en þær eldri sem ganga úr sér með tímanum og verða lagðar niður. Því má segja að ástandið fari stórlega batnandi.

 

Á hinn bóginn halda fabrikkurnar áfram að spúa gróðurhúsaloftegundum út í loftið þó í minna mæli sé en áður. Fólkið hér gerir sér alveg grein fyrir vandanum sem við glímum við og því að þetta er afleitt, en hér búa margar milljónir manna sem verða að hafa eitthvað af lifibrauði. Ekki getum við sagt fólkinu hér að loka batteríinu, því þá hefði það ekkert til að lifa á, en á sama tíma viljum við ekki að gróðurhúsalofttegundir sleppi út í andrúmsloftið, komandi kynslóðum, og reyndar okkar kynslóð líka, til mikillar armæðu eins og kunnugt er. Frændur vorir Finnar yrðu líka lítt glaðir þar sem þeir myndu húka í kulda og myrkri.

 

Því má segja að við séum á milli steins og sleggju, við viljum ekki óþrifnaðinn en þurfum samt á honum að halda til að geta lifað því sem við köllum sómasamlegu lífi.


Rússahatur

Í Eistlandi er rekið menntakerfi. Sjálfsagt ágætt fyrir sinn hatt að mörgu leiti. Tveir plús tveir ábyggilega nálægt fjórum, og lotukerfi hins rússneska Mendelejevs í hávegum haft. Þó virðist sem kynþáttahatur og frekar ógeðfelldur hugsunarháttur ráði ríkjum í huga margra kennara í skólakerfinu. T.d. er í dýrafræði kennt að þar í landi búi margar skepnur, s.s. refir, íkornar og Rússar. Þetta er sjálfsagt afskaplega hollur hugsunarháttur sem er innrættur ómótaðri æsku þessa lands og gott vegarnesti fyrir hana inn í framtíðina.

 

Það er náttúrulega vitað mál að Eistar hafa í gegnum tíðina verið frekar hallir undir slíkann hugsunarhátt, og ekki þarf að fara lengra aftur en til blómaskeiðs Þriðja ríkisins til að sjá að þá voru þarlendir menn margir hverjir í essinu sínu. Hjálpuðu Gestapó við að elta uppi samlanda sína sem ekki höfðu réttar skoðanir, eða voru af ættum Davíðs, og komu þeim skilmerkilega í útrýmingarbúðir.

 

Nú eftir að Eistland er orðið hluti af hinu stór-Evrópska ríki og hluti af NATÓ, virðist sem að í skjóli umburðarlyndis, lýðræðis og frjálsrar hugsunar sem bæði samtökin segjast m.a. standa fyrir, að þessi ógeðfelldi hugsunargangur fái að viðgangast. Nú er það staðreynd að á meðan Eistland var hernumið af Rússum, voru allir íbúarnir jafn réttháir, hvort sem menn telja að það hafi verið undir vondu stjórnkerfi eða góðu. Því er það sorglegt í meira lagi að stór hluti þjóðarinnar sem er af rússnesku bergi brotnir skuli vera teknir fyrir sem annars og þriðja flokks þegnar, og ekki taldir á meðal manna heldur skepna.

 

Ég heimsótti Eistland að mig minnir árið 1999. Þá báru gestgjafarnir mig á höndum sér. Mér er það minnisstætt að mér voru sýndar fallegar byggingar, farið með mig í tónleikasali, flotta restauranta, sýnt það nýjasta af byggingum og húsum þar sem hinn dæmigerði Eisti bjó. Mér varð það á einn morgun að fara einn út án hjálpar túlka eða leiðsögumanna, og ráfaði um stræti og torg. Þar kom að, að ég fór inn í frekar hrörlegt hverfi gamalla og skakkra timburhúsa þar sem kynnt var með reykspúandni kolaofnum, hálf villtir hundar ráfuðu um í bland við tötraleg og vannærð börn og í alla staði hinar hörmulegustu aðstæður. Þetta var hinn rússneski veruleiki í ríkinu. Þrátt fyrir skortinn og fátæktina var mér boðið inn í einn kofann og boðið upp á te og kex. Þetta kallast alvöru gestrisni.

 

Seinna þennan sama dag eftir að ég var kominn upp á hótel, búinn að skipta um föt og kominn í fína fólks gírinn og farinn að borða með slektinu, þá varð mér á (kannski ekki fyrir algera slysni) að minnast á þessi ósköp og lýsa skoðun minni á þeim. Einhvern veginn breyttist viðmótið í minn garð sem hafði verið elskulegt fram að því. Varð nokkuð kuldalegt svo ekki sé meira sagt, en þó ekki ókurteist. Því er ekki að neita að ég varð bara nokkuð stoltur og ánægður með sjálfan mig fyrir vikið, og á þá ósk heitasta að þetta fólk sem lýtur á sig sem herraþjóð fái smá ónotatilfinningu þegar það gegnur um Jóns Baldvins torg í Tallin. Að vísu er það borin von, en þó að ég hafi ekki eyðilagt nema einn góðan nætursvefn er ég ánægður.

 

Ég tel a.m.k. að á meðan ástandið í mannréttindamálum í Eistlandi er með þeim hætti sem nú er, þá eigi Íslendingar enga samleið með þessu fólki sem á íslensku væri kallað hálfgert hyski.


Med fegurri monnum

Thegar madur kemur hingad til Leninsk Kuznetsky, tha er ekki nog med ad madur se half druslulegur eftir langt ferdalag, heldur er timamismunurinn atta klukkustundir og thvi stundum erfitt ad na jafnvaegi a timaklukkuna.  Eg hef thad thvi til sids thegar hingad er komid, ad reyna ad thrauka ut daginn her i verksmidjunni, fa mer gott ad borda um klukkan sex og svo beint i baelid. Gerdi thad einnig i thetta skiptid, og svaf eins og saklaust ungabarn til morguns.Thetta kvold thegar eg sat ad snaedingi, tha voru natturulega fleiri gestir a restaurant Elegiu eins og gengur i theim erindagjordum. Vid naesta bord  voru t.d. eldri hjon ad halda upp a einhver timamot i sinu lifi; kampavin, rosir, rautt med matnum og fleira i theim agaeta dur. Einnig glitti I flosku af vodka mitt I ollu blomahafinu, en thad er drykkur sem alltaf er a bordum hvort sem tilefnid er stort eda litid. Stundum jafnvel an tilefnis. Vid eitt bordid sat svo sex manna gruppa, sem virtist hafa thad eitt ad markmidi ad drekka nogu mikid af vodka a sem skemmstum tima. Eins og titt er um folk sem stundar slikt, tha gerdust their fljott nokkud olvadir, foru ad hafa hatt og vildu blanda gedi vid hina gestina an thess ad einhver serstok eftirspurn vaeri eftir thvi. Thar sem eg er ekki af kyni kvenna, fekk eg ad vera til frids til ad byrja med. Thegar hins vegar konurnar letu oliklega, tha vard eg af einhverjum oskiljanlegum astaedum fyrir valinu sem heppilegur felagsskapur.Eg by vid tha lukku thegar eg er a restaurant Elegiu ad thjonustustulkurnar halda yfir mer eins konar verndarhendi. Um leid og einhver gerir sig liklegan til ad onada mig eru thaer komnar og utskyra ad eg se Islendingur, skilji ekkert og se med ollu vonlaus felagsskapur. Yfirleitt virkar thetta agaetlega, en tho ekki i thetta skiptid. Ekki var nokkru tauti vid foringja hopsins komid, og ad endingu tok eg tha akvordun (i fullu samradi vid thjonustustulkurnar) ad setjast til bords med monnunum. Eg var buinn ad snaeda, greida reikninginn og var ad drekka kaffi svo ekki var thad svo sem mikil fyrirhofn. Ad sjalfsogdu vard eg ad drekka med theim tvo eda thrju vodkastaup. Samraedurnar foru fram a ensku, en thar sem kunnatta foringjans I hopnum einskordadist vid ad geta kallad mig godan vin sinn og ad eg vaeri fallegur vard umraeduefnid fljott uppurid. Ad visu skal thess getid ad eg reyndi ad draga eins mikid a langinn og mer frekast var unnt thann hlutann sem snerist um fegurd mina, en jafnvel hun a ser sin takmork. Thad kom mer nokkud spanskt fyrir sjonir eda heyrnir, ad i hvert skipti sem felagar mannsins aetludu ad blanda ser i umraedurnar oskradi hann a tha, svo their steinthognudu. Fannst mer thetta nokkud hvimleitt, enda snerist umraedan adallega um fegurd mina, og thvi half dapurlegt ad fa ekki ad heyra fleiri sjonarmid en ad hun vaeri mjog mikil mikil. Lauk svo malinu med thvi ad eg kvaddi og for.Thad var thvi nokkud threyttur madur sem for I rumid thetta kvoldid, en fullur sjalfstrausts vitandi thad ad fegurri madur vaeri vart til.

Fyrir sunnan sól og austan mána

 Þá er ég kominn til Síberíu enn einn ganginn. Hitti tvo Finna á flugvellinum í Moskvu sem vildu meina að Síbería væri handan endimarka alheimsins. Þegar ég steig út úr vélinni á flugvellinum í Kemerovo fannst mér andartak að e.t.v. væri sannleikskorn í þessari fullyrðingu, enda frost og bylur að íslenskum hætti. Var reyndar búinn að ferðast töluvert þennan dag svo þreytan hefur væntanlega dekkt myndina aðeins. Hafði byrjað daginn á því að aka í um fjóra tíma frá Póllandi til Þýskalands, þaðan sem leið lá til Moskvu, síðan áfram til Kemerovo og svo með bíl hingað til Leninsk Kuznetsky. Með öllu orðið ferðalag í um sólarhring. Er eini útlendingurinn á þessum slóðum, og þykir nokkuð merkilegt að maður frá Íslandi af öllum löndum skuli vera búinn að hreyðra um sig hér að hluta til. Reyndar þykir mér nokkuð merkilegt sjálfum að fólk hér skuli yfirleitt vita um tilvist Íslands, en líkt og Síbería er talin handan endimarka alheimsins, má segja að Ísland ætti að vera handan þeirra sömu endimarka í augum þeirra sem búa hér. Í sama mund og ég ætlaði að fara að minnast á að tungumálaerfiðleikar væri atriði sem hrjáði mig hér að nokkru, en gæti um leið stundum verið bráðfyndið, herti ég upp hugann og hringdi í eldhúsið á hótelinu þar sem ég dvel til að byðja um morgunmat. Þegar ég hafði stunið upp á bjagaðri rússnesku að ég vildi gjarnan fá kaffi og morgunmat, þá reddaði stúlkan sem varð fyrir svörum málinu með að spyrja mig hreint út á engilsaxnesku hvort mér þóknaðist að hafa kaffið svart og sykurlaust eða með mjólk. Ég vildi hafa það svart og sykurlaust og gekk það eftir. Þegar ég kom hingað fyrst fyrir tæpum þremur árum, spurði ég túlkinn minn hvernig stæði á því að fáir eða engir töluðu ensku hér um slóðir. Hann svaraði að bragði að enskunám væri hálf tilgangslaust. Þegar ég hváði sagði hann mér að fjöldinn allur af Rússum hefði hlotið alþjóðlegar viðurkenningar í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, læknisvísindum, bómenntum og listum svo eitthvað sé nefnt. Flestir þeirra hefðu ekki talað orð í ensku, en tekist þetta samt. Rússar væru sjálfum sér nógir hvað varðaði tungumálakunnáttu, enda töluðu ca. 300 milljónir manna þetta tungumál. Því næst spurði hann mig hvaða tungumál við lærðum eiginlega á Íslandi fyrir utan ensku. Þegar ég svaraði til ,,dönsku´´ setti hann upp undrunarsvip og fullyrti að meira gagn væri í því fyrir okkur að læra rússnesku. Ég átti nú s.s. ekkert svar við þessu, en til þess að reyna að klóra í bakkann spurði ég hann því í ósköpunum hann hefði lært ensku sem væri hálf tilgangslaust að hans mati. Hann svaraði mér því til og glotti um leið, að í heiminum væru til nokkrir furðufuglar sem þættust tala dönsku, og að það væri svo ansi hagkvæmt að túlka fyrir þá gegn gjaldi. Ég átti ekkert svar við því.

Ógæfumaður í farteskinu.

Það er hálf óhuggulegt að við í VG þurfum að eiga allt undir Birni Inga í hinum nýja meirihluta sem búið er að stofna til í Reykjavík. Að vísu á eftir að bera gjörninginn undir félagsmenn VG, en samkvæmt þeim blaðamannafundi sem hinir nýju oddvitar stóðu að ásamt nokkrum ógæfumönnum er áttu leið um Vonarstræti, (merkilegt samhengi) stöndum við víst frammi fyrir orðnum hlut. Reikna með að slíkt eigi við um félagsmenn annarra flokka er standa að meirihlutanum sem verið var að stofna til.

 

Það er eins og ég sagði í upphafi hálf óhuggulegt að þurfa að eiga allt undir Birni Inga. Það verður ekki horft fram hjá því að nokkrum tímum áður en Björn Ingi varð félagshyggjumaður, að hann handsalaði samkomulag við fráfarandi borgarstjóra um áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann er víst líka búinn að taka í hendur oddvita nýju meirihlutaflokkana um samstarf. Það að handsala samkomulag þýðir í raun að menn leggja við drengskap sinn að standa við orð sín. Í sannleika sagt gef ég ekki baun fyrir samkomulag við persónur sem ganga svo freklega á bak orða sinna sem raun ber vitni. Sporin hræða.

 

Það vekur einnig furðu að í fyrradag var það samhljóma álit VG, Samfylkingar, og Margrétar Sverrisdóttur að umræddur Björn Ingi hefði gerst uppvís að gróflegri misnotkun valds, falið staðreyndir er snertu REI, gengið gegn hagsmunum almennings í því máli, staðið að gerð svívirðilegra kaupréttarsamninga við sérstaka gæðinga, m.a. Framsóknarflokksins, og að Framsóknarflokkurinn í heild sinni væri óalandi og óferjandi. Svipaðar skoðanir á Birni Inga og Framsóknarflokknum voru líka uppi daginn áður, daginn þar áður, vikurnar, mánuðina og jafnvel árin á undan. Hvað hefur eiginlega breyst á einum sólarhring sem gerir viðkomandi að hreinum englum, í stað hálfgerðra skúrka?

 

Nú hefur verið sent út fundarboð til félagsmanna VG í Reykjavík þar sem hið nýja meirihlutasamstarf verður til umræðu. Þ.e. að samþykkja orðinn hlut. Minnir nú óneitanlega á REI- málið. Ég ætla rétt að vona að við berum þá gæfu að fella þá tillögu. Það verður a.m.k. að útskýra sinnaskiptin fyrir okkur félagsmönnum.


Refurinn

Er að lesa ásamt dóttur minni sex ára, bók sem heitir Refurinn og fjallar um Pétur útlaga eftir A.M. Marksman. Um er að ræða eins konar sænskan Hróa hött. Man að ég las þessa ágætu bók sem polli, og þótti hún stórskemmtileg. Við feðginin vorum að ljúka við þriðja kafla, en í niðurlagi hans stendur um stóreigna- og fjáraflamenn þess tíma er sagan á að gerast:

,,Já. Þannig var það. Ef þeir gátu ekki rænt bændurna, þá rændu þeir hver annan. Því að þeir urðu að ræna. Það var þeirra líf.´´

Minnir mann óneitanlega á hvernig verið er að reyna að sölsa undir sig OR frá borgarbúum. Ef það tekst ekki í þessari tilraun verður reynt aftur, og í millitíðinni munu aðilar helga sig því að auka hagnað sinn á kostnað hvers annars.

Annars eru smiðirnir byrjaðir að setja upp þakið á draumahöll okkar hjónanna sem er að rísa í Hafnarfirði. Bíð óþreyjufullur eftir að geta flutt lögheimili mitt til Hafnarfjarðar, þar sem mér virðist að stjórnendur þess bæjarfélags séu þeir einu á höfuðborgarsvæðinu sem ætla að standa í lappirnar gegn ásælni einkaaðila í sameiginlegar auðlindir okkar. Gallsúrt að þurfa að játa slíkt þegar um krata er að ræða, en svona getur lífið stundum verið manni andsnúið.


Að byggja sér draumahöll

Konan mín, ég og bankinn fundum út fyrir nokkru að húsnæði vort væri orðið of lítið, óhentugt vegna fjarlægðar frá vinnunni ásamt einhverjum öðrum ókostum. Þá var ákveðið að í stað þess að kaupa skyldi byggt. Og í næstu viku mun fjölskyldan sem sagt geta staðið á gólfi jarðhæðar draumahallarinnar. Þó svo að þetta hljómi einfalt er það nú ekki svo. Fyrst þarf að teikna húsið, og er það hreint með ólíkindum að fólk sem hefur búið saman í tíu ár skuli hafa svo ólíkar skoðanir á hlutunum. Atriði eins og lögun, stærð og staðsetning glugga geta tekið nokkrar vikur í umfjöllun byggingarnefndar heimilisins, ásamt kærufrestum og andsvörum og andsvörum við þeim. Þess utan þá virtist sem hver einasti gröfumaður, smiður, pípari, rafvirki og múrari landsins væri bundinn við smíði annarra draumahalla.

 Í bjartsýni minni átti nú að rumpa af ýmsum smáatriðum sem ég ætlaði að sjá um. Allur handmokstur á grús og sandi innan sökkuls sem utan, þjöppun, akstur stórvirkra vinnuvéla sem hjólbörur óneitanlega eru, járnabinding og allt snatt í kringum framkvæmdina hefur tekið lengri tíma og verið erfiðara en ég hélt. Síðustu tvær vikur hafa því verið mjög strembnar og kostað mikinn svita og oft verið bitið á jaxlinn og bölvað í hljóði (ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna aldrei er farið með guðsorð þegar fólk stendur í svona erfiði, heldur alltaf bölvað. Ég er búinn að finna skýringuna á því að ég tel).

Þrátt fyrir allt amstrið og erfiðið sem þessu fylgir, þá eru hlutir eins og að sjá minnismerki um sjálfan sig rísa, vinna úti í þeirri blíðu sem hefur ríkt að undanförnu og að sjá þegar maður stendur fyrir framan spegilinn að magavöðvarnir sem hurfu fyrir nokkrum árum eru farnir að sjást aftur þá er það vel þess virði að standa í þessari geðveiki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband