Fyrir sunnan sól og austan mána

 Þá er ég kominn til Síberíu enn einn ganginn. Hitti tvo Finna á flugvellinum í Moskvu sem vildu meina að Síbería væri handan endimarka alheimsins. Þegar ég steig út úr vélinni á flugvellinum í Kemerovo fannst mér andartak að e.t.v. væri sannleikskorn í þessari fullyrðingu, enda frost og bylur að íslenskum hætti. Var reyndar búinn að ferðast töluvert þennan dag svo þreytan hefur væntanlega dekkt myndina aðeins. Hafði byrjað daginn á því að aka í um fjóra tíma frá Póllandi til Þýskalands, þaðan sem leið lá til Moskvu, síðan áfram til Kemerovo og svo með bíl hingað til Leninsk Kuznetsky. Með öllu orðið ferðalag í um sólarhring. Er eini útlendingurinn á þessum slóðum, og þykir nokkuð merkilegt að maður frá Íslandi af öllum löndum skuli vera búinn að hreyðra um sig hér að hluta til. Reyndar þykir mér nokkuð merkilegt sjálfum að fólk hér skuli yfirleitt vita um tilvist Íslands, en líkt og Síbería er talin handan endimarka alheimsins, má segja að Ísland ætti að vera handan þeirra sömu endimarka í augum þeirra sem búa hér. Í sama mund og ég ætlaði að fara að minnast á að tungumálaerfiðleikar væri atriði sem hrjáði mig hér að nokkru, en gæti um leið stundum verið bráðfyndið, herti ég upp hugann og hringdi í eldhúsið á hótelinu þar sem ég dvel til að byðja um morgunmat. Þegar ég hafði stunið upp á bjagaðri rússnesku að ég vildi gjarnan fá kaffi og morgunmat, þá reddaði stúlkan sem varð fyrir svörum málinu með að spyrja mig hreint út á engilsaxnesku hvort mér þóknaðist að hafa kaffið svart og sykurlaust eða með mjólk. Ég vildi hafa það svart og sykurlaust og gekk það eftir. Þegar ég kom hingað fyrst fyrir tæpum þremur árum, spurði ég túlkinn minn hvernig stæði á því að fáir eða engir töluðu ensku hér um slóðir. Hann svaraði að bragði að enskunám væri hálf tilgangslaust. Þegar ég hváði sagði hann mér að fjöldinn allur af Rússum hefði hlotið alþjóðlegar viðurkenningar í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, læknisvísindum, bómenntum og listum svo eitthvað sé nefnt. Flestir þeirra hefðu ekki talað orð í ensku, en tekist þetta samt. Rússar væru sjálfum sér nógir hvað varðaði tungumálakunnáttu, enda töluðu ca. 300 milljónir manna þetta tungumál. Því næst spurði hann mig hvaða tungumál við lærðum eiginlega á Íslandi fyrir utan ensku. Þegar ég svaraði til ,,dönsku´´ setti hann upp undrunarsvip og fullyrti að meira gagn væri í því fyrir okkur að læra rússnesku. Ég átti nú s.s. ekkert svar við þessu, en til þess að reyna að klóra í bakkann spurði ég hann því í ósköpunum hann hefði lært ensku sem væri hálf tilgangslaust að hans mati. Hann svaraði mér því til og glotti um leið, að í heiminum væru til nokkrir furðufuglar sem þættust tala dönsku, og að það væri svo ansi hagkvæmt að túlka fyrir þá gegn gjaldi. Ég átti ekkert svar við því.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband