1.4.2007 | 20:57
Nýir tímar í Hafnarfirði
Í gær kom í ljós eins og flestir vita að Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík. Höfnuðu ekki álverinu sem er fyrir, heldur einvörðungu stækkun þess eða nýju álveri eftir því hvernig á það er litið. Það er klár staðreynd að ekki verður um stækkun að ræða á þessu kjörtímabili í Hafnarfirði. Það er einnig ljóst að núverandi álver er rekið í mikilli sátt við stærstan hluta bæjarbúa, og vert að minnast þess að Hafnfirðingar voru ekki með afstöðu sinni í gær að kjósa það í burtu. Öðru nær ef litið er á málflutning stækkunarandstæðinga. Úrslitin sem urðu í gær eru heldur ekki til marks um sterka stöðu einstakra stjórnmálaflokka í Hafnarfirði, heldur er greinilega um að ræða mál sem Hafnfirðingar kusu um út frá því sem þeir telja að komi hag bæjarins til góða.
Í Silfri Egils fyrr í dag var því eins og Kristrún Heimisdóttir, Samfylkingunni, væri ekki alveg í takt við tímann. Að þakka Samfylkingunni úrslitin, að blanda saman nýrri stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum og niðurstöðunni og lýsa því yfir að Samfylkingin komi afskaplega sterkt út úr þessu lyktar af hálfgerðri tækifærismennsku. Eru nokkur rök fyrir því að stuðningsmenn annarra stjórnmálaflokka sem kusu gegn þessari stækkun hafi gert það með hag Samfylkingarinnar í huga. Held að það geti varla verið. Á sama hátt voru þeir sem kusu með stækkuninni ekki að styðja einn stjórnmálaflokk öðrum fremur. Hér voru bæjarbúar eins og áður sagði einvörðungu að kjósa út frá því hvernig þeir telja hagsmunum bæjarins best borgið.
Á hinn bóginn ef litið er á hvernig einstakir stjórnmálaflokkar komu að þessu máli, eða öllu heldur kjörnir fulltrúar þeirra, þá er ekki með nokkru móti hægt að segja að Samfylkingin komi sérstaklega sterkt út úr því. Enginn fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn vildi gefa upp afstöðu sína (þó svo að þeir gæfu í skin að þeir væru fylgjandi stækkun). Það lá hins vegar fyrir svo dæmi sé tekið hverrar skoðunar fulltrúi VG í bæjarstjórn var og er í málinu alveg frá byrjun. Það er afskaplega trúverðugt þegar fulltrúar stjórnmálaflokka koma fram áður en niðurstaða liggur fyrir og segja sína skoðun, á sama hátt og það er ótrúverðugt þegar fulltrúar koma eftir á og ætla að skreyta sig blómum. Mikið rétt. Samfylkingin lagði fram tillöguna um kosningarnar og virðist ætla að hlýta niðurstöðunni, en það er ekki þar með sagt að þeir beri einhvern sérstakan heiður af hvernig mál gengu fram. Nær væri að segja að Samfylkingin hefði beðið nokkuð afhroð.
Það er ekki glæsilegt veganesti sem oddviti Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi leggur upp með fyrir kosningarnar í vor. Hann, leiðtogi listans, var nokkuð hallur undir stækkunina á meðan nokkrir aðrir meðframbjóðendur hans voru á móti. Því má segja að flokkurinn hans sé klofinn í afstöðunni til stóryðjuuppbyggingar á svæðinu, eða a.m.k. sé uppi þó nokkur ágreiningur. Það er ekki beint trúverðugt gagnvart kjósendum, og því eru fullyrðingar um að Samfylkingin sé hinn eini og sanni sigurvegari nokkuð færðar í stílinn. Enda ómaklegt gagnvart íbúum bæjarins sem tóku þátt í kosningunum, því að um þverpólitískt mál er að ræða. Afstaða fólks endurspeglaðist frekar eftir búsetu og aldri, en pólitískum línum.
Þeir sem raunverulega sigruðu voru þeir sem ekki vilja gera Hafnarfjörð að stærsta álsveitarfélagi í Evrópu, þeir sem vilja aðra sýn en endalausa stóryðju sem eina valkostinn í atvinnusköpun. Sjónarmið umhverfisverndar urðu ofan á, og vonandi að stjórnvöld sjái nú að sér í stað þess að ráðstafa takmarkaðri orku til fyrirtækja á borð við álverið í Straumsvík. Samfylkingin hefur fram að þessu ekki skipað sér í þá sigursveit.
29.3.2007 | 15:05
Skoðanaleysi hafnfirksu Samfylkingarinnar
Í Fréttablaðinu í dag er grein frá oddvita Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi, sem jafnframt er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði. Þegar ég hóf lestur greinarinnar hélt ég í einfeldni minni að nú ætlaði kjörinn fulltrúi bæjarbúa loksins að fara að hafa skoðun og koma henni meira að segja á framfæri á fyrirhugaðri kosningu. En nei, ónei, ekki gat það nú verið svo gott. Áfram er staglast á því að bæjarbúar eigi að mynda sér skoðun sjálfir án hans hjálpar.
Ég held að bæjarbúar geti það alveg og hafi gert án hans hjálpar. En óskaplega væri nú fróðlegt að fá fram frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hverrar skoðunar þeir eru. Þeir eru m.a. kjörnir til að hafa skoðun. En er þetta ekki líka spurningin um að sýna ögn af dug og þori?
29.3.2007 | 14:12
Vilja Hafnfirðingar vera handbendi auðhringa!
Innan ekki svo langs tíma mun lögheimili mitt verða í Hafnarfirði. Þar sem ég hef ekki enn flutt það þangað má ég ekki kjósa um stækkun álversins. Ég hef samt líkt og flestir aðrir landsmenn skoðun á þessari fyrirhuguðu stækkun. Ég tel að íbúar Hafnarfjarðar eigi að hafna henni, þó svo að þeir eigi í raun og veru ekkert með það að gera að ákveða hvort af stækkuninni verður eða ekki. Þ.e. einhliða. Aðrir Íslendingar ættu að hafa jafn mikið um það að segja og þeir. Íbúar við Þjórsá hljóta að ráða einhverju, og hvernig við eigum að ráðstafa þeirri raforku sem fer í að kynda undir ofnunum er ekki einkamál 20.000 manna sveitahrepps sunnan Reykjavíkur.
En nóg um það. Það er hins vegar umhugsunarefni að erlendur auðhringur geti blandað sér í innanríkismál okkar Íslendinga með þeim hætti sem raun ber vitni. Miðað við þær fjárhæðir sem runnið hafa í þessa kosningabaráttu af hálfu hins erlenda auðhrings, er sú ákvörðun ekki tekin af stjórnendum álversins í Straumsvík. Sjálfsagt er almannatengsladeildin í höfuðstöðvunum einnig með í ráðum þegar kemur að markaðssetningu kosningabaráttunnar og hvernig kaupa eigi atkvæði innfæddra.
Viljum við að erlendir aðilar sem hugsa um einvörðungu um að sjúga sem mest út úr íslensku efnahagslífi og auðlindum ráði framtíð okkar?
23.3.2007 | 11:25
VIÐ og ÞEIR
Í gærkvöldi eftir að annað heimilisfólk var gengið til rekkju, fór ég á rásaflakk í sjónvarpinu. Stoppaði á stöð sem heitir Omega. Já, ég af öllum mönnum. Það verður að segjast að þessi stöð og efnistök hennar eru með afskaplega fróðlegum hætti. Þarna sátu þrjár manneskjur, Ólafur, ásamt þeim Kristni og Dísu frá Keflavík. Er nú enn að velta fyrir mér hlutverki Dísu þar sem hún sagði nú ekki nema eina eða tvær setningar allan tímann, en látum það liggja á milli hluta.
Það sem mér þótti hins vegar vera merkilegt í þeim umræðum sem þarna fóru fram, eða öllu heldur það sem lesa mátti út úr þeim, var hinn mikli ótti og fyrirlitning á hinum íslamska heimi og hinu óþekkta. Þessi skil á milli OKKAR og ÞEIRRA, en m.a. var vitnað til þess að ÞEIR væru orðnir 220.000 í Danmörku, vegna ÞEIRRA krafna í skólum í Noregi sem börn ÞEIRRA sækja mega kennarar ekki bera kross um hálsinn, ÞEIR vilja ekki friðmælast við Ísraelsmenn o.s.frv. o.s.frv.
Fyrirlitning þátttakenda á menningu múslíma, sem er sprottin úr sama umhverfi og kristindómurinn var átakanlegur. Fullyrðingar um að efnahagur fólks sem ekki byggi í hinum kristna heimi væri lakari sökum þess að ÞETTA fólk sé múslímar, (búddistar, hindúar og trúi á stokka og steina) komu einnig fram með skýrum hætti. Það að um er að ræða fyrrverandi nýlendur sem voru mergsognar af vesturlöndum spilar þar enga rullu.
Þegar ég hélt að komið væri að andartaki umburðarlyndisins þegar þáttarstjórnandinn talaði um að hann væri ekki sammála gerðum núverandi forsætisráðherra Ísraels, klykkti stjórnandinn út með að segja að hann hefði átt að klára dæmið af meiri hörku í innrásinni í Líbanon nú síðast. Þar með fór það.
Þó að Ólafur, Kristinn og Dísa séu vonandi bara að tala út frá skoðunum og ,,vissu´´ örlítils hóps íslensku þjóðarinnar, og því áhrifalaus sem slík, er annað mikið áhyggjuefni.
Ég hef það á tilfinningunni að þeir sem ráða ríkjum í eina stórveldi heimsins í dag, séu nokkurn veginn á þessari línu. Fyrirlitning á ÞEIM sem aðhyllast íslamska trú, ótti við ÞÁ sem eru öðruvísi ásamt gróðahyggju er afskaplega varhugaverð blanda í fari ráðandi afla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.3.2007 | 10:15
Þegar einn græðir þá tapar annar.
Hef heyrt og lesið að til eru þeir sem dást af velgengni forstjóra og bankastjóra íslensku bankana sem gengur víst allt í haginn líka. Ótrúlegar tölur um hagnað og (verð)-laun. Reyndar eru þessar hagnaðartölur með ólíkindum, þar sem ekki liggur neitt að baki nema verslun með bréf og álagning vaxta á peninga sem lántakandi sér í flestum tilfellum ekki einu sinni. Það er nú staðreynd að ef einn græðir óhóflega, þá tapar annar jafn miklu ef engin bein verðmætasköpun er að baki eins og í þessum tilfellum.
Umhugsunarvert að nú eru a.m.k. tveir íslenskir bankar orðaðir við að hjálpa til við kaup á norsku olíuleitarfyrirtæki með starfsemi í Írak. Vonandi verður hagnaður þeirra sem mestur, enda geta þeir nú staðið í fjármálaævintýrum sem eru m.a. kostuð af lífum 750.000 manna sem látist hafa í Írak síðan Íslendingar byrjuðu hernað þar ásamt fleirum. Sjálfsagt verður heilmikill olígróði eftir hjá almenningi í Írak, enda eru íslensku bankarnir þekktir fyrir að okra ekki á almenningi t.d. á Íslandi.
Væri fróðlegt að vita hvort hagnaður bankana, bankastjórnendana og náttúrulega hluthafana af þessari fjármögnun verður í sama hlutfalli og tala látinna og örkumla Íraka sem hluta af heildar fólksfjölda þess lands.
En skiptir kannski ekki máli, því að sama er hvaðan gott kemur.
21.3.2007 | 15:10
Gullkálfurinn handan Gullinbrúar
Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Þeir í Grafarvoginum geta skellt VÍS einhvers staðar inn í þuluna sem mig minnir að sé ávalt viðhöfð við kirkjulegar athafnir. Þegar kirkjan er farin að taka þátt í styrkjakerfi stórra fyrirtækja held ég að sé fokið í flest skjól.
KR er á spena hjá Landsbankanum (þótt árangurinn sé engu betri en áður þrátt fyrir það). OR fýrar upp bombum á menningarnótt. Listasöfn farin að reka sig á styrkjum frá fjársterkum aðilum. En kirkjan. Þarna er verið að dansa í kringum gullkálfinn. Var ekki öllu sökkt á bólakaf í framhaldi af því í Sódómu og Gómorru?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2007 | 12:50
Súkkulaði út um allt
Gleðitíðindi fyrir okkur áhugamenn um kvenlegan þokka. Samkvæmt RÚV gerir súkkulaðineysla kvenna brjóst þeirra stinn og er í reynd grennandi. Gott að vita til þess nú í komandi páskaeggjavertíð. Megum samt ekki vera á útkíkki yfir aðalhátíðina. Gætum orðið fyrir eldingu.
Hljómar karlrembulega, en skítt og lago með það.
21.3.2007 | 11:00
Smáralind tapar
Smáralind rekin með 650.000.000kr. tapi í fyrra og 150.000.000kr. tapi árið áður. Tap upp á 800.000.000kr. yfir tvö ár. Þetta þýðir að ef á að snúa þessu við þarf húsaleiga þeirra verslana sem þar eru að hækka, sem aftur þýðir hærra vöruverð til neytenda.
Er ekki verið að tala um að reisa fleiri Smáralindir og Kringlur. Einkar góð hugmynd það.
21.3.2007 | 09:42
Samfylkingin ætti að friðmælast við VG
Það liggur alveg ljóst fyrir að til að vinstri stjórn verði mynduð þarf liðstyrk VG, og til að svo verði þarf hreyfingin að spila þar mjög stórt hlutverk. Á sama hátt þarf Samfylkingin að vera þátttakandi í slíku samstarfi. Því skyldi maður a.m.k. álíta að frambjóðendur og stofnanir og aðildarfélög þessara flokka stæðu saman í komandi kosningabaráttu, eða í það minnsta einbeittu sér frekar að pólitískum andstæðingum sínum í málflutningi sínum. Því þykir mér það sárt að hlusta á einstaka frambjóðendur Samfylkingarinnar, s.s. Árna Pál Árnason og einhver nýstofnuð félög eins og unga jafnaðarmenn í Garðabæ og Álftanesi hafa ekkert annað fram að færa en skítkast, dylgjur og málflutning blandaðan einhverri heift í garð VG.
Það má vel vera að slíkur málflutningur henti vel í prófkjörum Samfylkingarinnar til að ná árangri í bland við uppspuna þess efnis að erlend ríki hafi talið hrokafulla aðstoðarmenn einstakra ráðherra það merkilega að þurft hafi að hlera samtöl þeirra. Í alvöru pólitík þarf hins vegar að hafa meira fram að færa en slíkt gjálfur.
Eins og sést á framsóknarmönnum þá er þetta akkúrat það sem þeir eru að sækjast eftir. Að stjórnarandstöðuflokkarnir beini kröftum sínum hver að öðrum í stað þess að einbeita sér að kosningabaráttu þar sem höfuðandstæðingarnir og verk þeirra og hugmyndafræði eru teknir fyrir. Enda þeirra hagsmunir að svo sé. Sama má náttúrulega segja um Sjálfstæðisflokkinn, þar eiga menn þá heitustu ósk að VG og Samfylkingin djöflist eins og kostur er hvorir í öðrum.
Er ekki mál til komið að þeir frambjóðendur Samfylkingarinnar sem hafa hagað sér svona fari að snúa sér að alvöru pólitík í stað upphrópana út í loftið. Möguleikar í vonlítilli baráttu sumra þeirra til að komast á þing aukast ekki við þetta.
21.3.2007 | 00:18