Reiði, og vonleysi

Þegar maður les frásagnir þess alþýðufólks sem upplifði kreppuna miklu á síðustu öld, má skynja að ríkt hefur óskaplegt vonleysi meðal þess. Fátækt, hungur, kuldi og léleg klæði var það eina sem foreldrar gátu oft á tíðum boðið börnum sínum upp á. Lífsbaráttan það hörð að margir þeirra sem undir öðrum kringumstæðum hefðu átt glæsta framtíð gáfust hreinlega upp. Urðu s.s. vonleysinu og biturðinni að bráð.

Einnig skynjar maður þá miklu reiði sem heiðarlegt fólk var gripið yfir hinni miklu misskiptingu auðs, gæða og tækifæra sem þessir tímar skópu. Ef fólk lét í sér heyra um hið hróplega óréttlæti var það jafnvel sett á svarta lista, fékk síður vinnu og þar með minni möguleika til að brauðfæra sitt fólk.

Í einfeldni minni hélt ég að þetta væri hlutur sem maður ætti eingöngu eftir að upplifa í gegnum frásagnir eldra fólks, skynja þessa tíma úr fjarlægð og hugsa sem svo að valdhafarnir hlytu að hafa lært það mikið af reynslunni að forsendur fyrir svona ástandi myndu ekki skapast aftur.

Reyndar er ástandið ekki orðið svona enn. Ljósið í myrkrinu eru ýmis félagsleg réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur náð að koma í gegn þó ekki hafi sú réttindabarátta gengið þrautalaust fyrir sig. Á hinn bóginn er almenningur skuldsetnari nú en þá og fyrirsjáanlegt að ekki er eingöngu búið að ræna þær kynslóðir sem nú eiga að heita í fullu fjöri heldur einnig afkomendur okkar.

Á þeim krepputímum sem á undan hafa gengið hefur heldur ekki verið slíkur fjöldi erlends vinnuafls eins og nú er. Sumt þessa fólks er þegar farið til síns heima á ný, en aðrir vilja vera eftir. Við vitum vel að þegar að kreppir þá vill reyndin verða sú að stutt er í fordóma í garð útlendinga sem eru þegar vel gegnur ekki of góðir til að vinna við að hreinsa upp eftir okkur skítinn og borga sína skatta og skyldur. Nú verða láglaunastörfin sem útlendingarnir vinna meira að segja allt í einu eftirsóknarverð. Við Íslendingar erum ekkert frábrugðnir öðrum þjóðum að því leitinu til, að ,,Ísland skuli vera fyrir Íslendinga´´ þegar illa gengur. Sú hætta hlýtur því að vera raunveruleg að við dettum í það far að hafa fordóma gagnvart þeim útlendingum sem hér búa og vilja starfa. Því miður.

Þegar er maður farinn að heyra í auknum mæli um þetta ,,sígaunapakk´´, ,,grjónaætur´´ og fleira fallegt í þessum dúr.

Að almenningur gerti fundið blóraböggla fyrir vanhæfni valdhafana er í sjálfu sér eftirsóknarvert fyrir þá. Hvort sem það er sígaunapakkið, grjónaæturnar, Davíð Oddsson, Gordon Brown eða ytri skilyrði, þá beinist ekki athyglin að rót vandans á meðan. Rót vandans er ekki það sem á undan er talið, heldur frekar að þeir stjórnmálamenn sem hafa verið við völd hafa ekki staðið sig.

Hvort sem stjórnmálamennirnir hafa verið við völd í sautján ár eða ,,eingöngu´´ í eitt og hálft og allt þar á milli þá bera þeir ábyrgðina. Eða voru þeir ekki annars ráðnir til að stjórna landinu.

Kannski er eitthvað til í því sem virtir og óháðir erlendir fræðimenn segja um íslensk stjórnvöld um að þetta séu upp til hópa kjánar þegar kemur að stjórn efnahagsmála.

Í dag skynjar maður reiði og vonleysi meðal fólks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Við eigum eftir að upplifa mun meiri reiði og vonleysi. Fjöldinn allur er enn í afneitun, trúir að þetta muni reddast eða hrindir því frá sér. Hræddur er ég um að handónýt verkalýðshreyfing og reyndar pólitíkusar (er Ögmundur bara einn í þingflokki VG) muni ala á hræðslunni í von um að verkafólk haldi að sér höndum.

Tillögur ASÍ um engar launahækkanir eru fyrstu merki uppgjafarinnar. Hækka þarf laun, tekjujöfnunin á svo að koma í gegn um skattakerfið. Stóreignaskattar, hátekjuskattar og eignaupptaka svo dæmi séu tekin.

Gott fyrsta skref væri að kjósa strax.

Rúnar Sveinbjörnsson, 21.10.2008 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband