Ónýt króna

Ég hef alltaf verið eindreginn stuðningsmaður VG og fylgt þeim ágæta flokki í gegnum súrt og sætt. Hef ég gert það sökum þess að mestur samhljómur er í mínum skoðunum og þess sem flokkurinn hefur upp á að bjóða í stefnu sinni. Að sjálfsögðu kemur fyrir að skoðanir flokksmanna eru ekki samræmdar í stórum málum, og er þá reynsla mín hingað til sú að rætt er um hlutina og ákvörðun tekin út frá þeim umræðum sem eiga sér stað. Nákvæmlega eins og á að vinna hlutina innan flokka sem vilja vinna eftir lýðræðislegum hefðum. Svo er hitt annað mál að einstaklingar eru missterkir og hafa mismikil áhrif með málflutningi sínum. Annað væri óeðlilegt.

Eitt þeirra mála sem samstaða hefur verið um innan flokksins er að við Íslendingar skulum standa fyrir utan ES og halda í okkar krónu. Fram til þessa hefur það líka verið sjálfsagður og eðlilegur hlutur í mínum augum. Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki að því gert að ég er farinn að hugleiða aðra kosti. Ég líkt og flestir aðrir Íslendingar er að reyna að koma mér þaki yfir höfuðið, er með mín kreditkort, yfirdráttarheimildin í botni og í alla staði mjög virkur þátttakandi í neyslunni. Þetta gildir að ég held um stóran hluta þjóðarinnar, og því er staða mín ekki ósvipuð og hjá öðrum.

Nú eftir síðustu fréttir af því að vextir af íbúðalánum eigi að vera og séu orðnir um 6,5 til 7,5%, fyrir utan verðtrygginguna sem er gífurleg í bullandi verðbólgu eins og verið hefur um langt skeið, hlýtur maður að spyrja sig hvort ekki sé nóg komið svo að fastar sé ekki að orði kveðið. Yfirdráttarvextir eru um 20%, og ef ég fer ekki með fleipur minnir mig að vextir á kreditkortunum séu svipaðir. Venjuleg skuldabréfalán eru svo með vaxtaprósentu upp á 12-15% og verðtryggð þar að auki. Ef hér væri gjaldmiðill sem heitir Evra, eða krónan a.m.k. fastbundin gengi hennar, væri vaxtaprósentan önnur og lægri en okkur er boðið upp á í dag. Ég veit það að almenn lán á Evrusvæðinu bera 4,5% vexti og þá óverðtryggð. Húsnæðislán bera svo lægri vexti. Þessi vaxtamunur hefur í för með sér að af tuttugu milljón króna láni eru íslenskir lántakar að greiða a.m.k. 400.000kr. meira á ári af húsnæði sínu en fólk í svipaðri stöðu í Evrópu, og þá er ekki talið með verðbæturnar og vextirnir af þeim. Enn hrikalegri er þessi munur ef borin væru saman önnur lán.

Í mínum huga er ekki neinum vafa undirorpið að efnahagsstefna undanfarinna ára á stóran þátt í þeirri gífurlegu vaxtabyrði sem lögð er á venjulegt fólk. Það er einnig deginum ljósara að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur ekki neina getu til að bæta ástandið, a.m.k. hefur hún ekki sýnt neina tilburði í þá átt hingað til. Því er það stóra spurningin sem við almenningur stöndum frammi fyrir núna hvort við höfum einfaldlega efni á að bíða lengur eftir betri tíð með blóma í haga.

Ég tel svo ekki vera. Sú umræða hlýtur að verða tekin upp í VG hvort hag okkar almennings sem flokkurinn minn berst fyrir sé betur komið innan ES eða utan, og ekki síður sú umræða hvort það sé ekki til þess vinnandi til að taka annað hvort upp Evruna sem gjaldmiðil eða fasttengja krónuna henni, svo almenningur geti staðið undir skuldbindingum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Góð grein og það er ljóst að skoðun þeirri sem þú lýsir vex fylgi. Það er von mín að strax á næsta ári fari menn að ræða þessa hluti af alvöru og skynsemi og hætti órökstuddum upphrópunum í hvert sinn sem þessir hlutir eru nefndir. Með fullri virðingu fyrir flokkunum þínum, verður það seint að hann láti af þessum upphrópunum og þversumhyggju.

Jón Ingi Cæsarsson, 9.11.2007 kl. 07:45

2 Smámynd: Steingrímur Ólafsson

Sæll Jón, og takk fyrir hólið.

Í sjálfu sér hefur flokkurinn minn ekki verið með upphrópanir og þversumhyggju. Aðstæður hér hafa verið með þeim hætti að það hefur ekki verið ástæða til að fara þessa leið. Á hinn bóginn er staðan sú núna að spurningin er einfaldlega sú hvort við getum nokkuð annað gert.

Þeir stjórnmálamenn sem hafa haldið um stjórnartaumana síðustu ár og þeir sem eru núna við völd ráða hreinlega ekki við ástand efnahagsmála. Forsætisráðherra vor hefur samkvæmt fréttum viðurkennt að mistök hafi verið gerð í þeim efnum.

Því hlýtur maður að hugleiða hvað er til ráða. Nú má vel vera að aðrar leiðir séu betri, en það verður hreinlega að ræða það. Svo er það líka spurning hvort við höfum efni á að velta hlutunum í mörg ár fyrir okkur.

Steingrímur Ólafsson, 9.11.2007 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband