Af hoppurum, sóti og skít

 Verksmiðja vor hér úti í Síberíu framleiðir s.k. rockhoppara, gúmmídiska sem notaðir eru á botnvörpur. Hoppa s.s. yfir urð og grjót þegar trollið er dregið eftir sjávarbotninum. Nú hafa margir spurt mig þeirrar spurningar hvernig í ósköpunum standi á því að framleiðslan skuli vera best komin 3.000 km. frá sjó. Því er til að svara að dekkin sem notuð eru í framleiðsluna vega hvert um sig u.þ.b. 2,5 til 5 tonn, og eru þau dekk sem til falla héðan frá námunum því upplögð til framleiðslunnar, en hver rockhoppari getur orðið meira en metri í þvermál og þyngdin alveg upp í 80 kg. Það eru því engir venjulegir hjólbarðar sem henta í framleiðslu sem þessa. 

Kolanámurnar hér um slóðir eru líklega með þeim stærstu sem þekkjast. Flestar eru s.k. opnar námur, en þá er jarðvegi mokað ofan af kolalögum, síðan aftur jarðvegi ofan af næstu kolalögum þar fyrir neðan og svo koll af kolli. Ég hef heimsótt nokkrar svona námur, og verður að segjast eins og er að manni finnst maður hálf lítill innan um vélar sem eru að moka upp undir 45 tonnum í einni skóflu og vörubíla sem eru að flytja þetta 80 til 120 tonn í ferð. Svo eru sprengi- og mælingasveitir út um allar koppagrundir við iðju sína, og þá er ótalið allt það rask á náttúru sem svona aðfarir hafa í för með sér. T.d. heimsótti ég eina námu sem er í smærri kantinum, en engu að síður var umfang uppgraftrarins slíkt, að ef við ímyndum okkur að Elliðaárdalurinn hefði einhvern tíman verið á jafnsléttu, væri búið að grafa hann upp og flytja allan jarðveginn til.

 

Kolin sjálf fara svo í flokkun, sum henta best til raforkuframleiðslu, önnur til stálbræðslna, húshitunar o.s.frv. o.s.frv. Stór hluti þeirra fer svo með lestum áleiðis til annarra landa, s.s. Finnlands og Tyrklands, þar sem þau eru notuð til iðnaðarframleiðslu og húshitunar. Ég var fyrir nokkrum árum í Helsinki og sá þá raforkuver úr fjarlægð, en þar voru vélskóflur á stöðugum þönum með kol í ofnana. Reikna með að þau hafi verið héðan.

 

Þessu fylgir að sjálfsögðu meiri mengun en einungis sjónmengun. Kolaryk og sót frá hinum ýmsu verksmiðjum fylgir með í kaupunum, og auðvelt er að gera sér grein fyrir að mikið magn kola þarf til kyndingar og hitunar á vatni þegar frostið fer niður í -45 til -50 gráður á vetrum og getur verið viðvarandi fyrir neðan -30 stig vikum saman. Nú sækjast íbúarnir hérna ekkert sérstaklega eftir því að anda að sér ósköpunum, en verða nú eins og gefur að skilja að láta sig hafa það samt. Hérna er stöðugt verið að vinna að betri mengunarvörnum, en margar þeirra verksmiðja sem hér eru myndu ekki uppfylla þær kröfur sem við gerum til slíkra hluta. Nýjar verksmiðjur verða reyndar að uppfylla miklu strangari kröfur en þær eldri sem ganga úr sér með tímanum og verða lagðar niður. Því má segja að ástandið fari stórlega batnandi.

 

Á hinn bóginn halda fabrikkurnar áfram að spúa gróðurhúsaloftegundum út í loftið þó í minna mæli sé en áður. Fólkið hér gerir sér alveg grein fyrir vandanum sem við glímum við og því að þetta er afleitt, en hér búa margar milljónir manna sem verða að hafa eitthvað af lifibrauði. Ekki getum við sagt fólkinu hér að loka batteríinu, því þá hefði það ekkert til að lifa á, en á sama tíma viljum við ekki að gróðurhúsalofttegundir sleppi út í andrúmsloftið, komandi kynslóðum, og reyndar okkar kynslóð líka, til mikillar armæðu eins og kunnugt er. Frændur vorir Finnar yrðu líka lítt glaðir þar sem þeir myndu húka í kulda og myrkri.

 

Því má segja að við séum á milli steins og sleggju, við viljum ekki óþrifnaðinn en þurfum samt á honum að halda til að geta lifað því sem við köllum sómasamlegu lífi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að fá samhengi í hlutina.  Endilega skrifa meira um þennan skrýtna heim Síberíu.  Ég er í það minnsta mjög forvitin...

Marín Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 09:39

2 identicon

Kíkti hér inn í fyrsta sinn í nokkrun tíma. Gaman að sjá marga fróðlega pistla. Þessi síðasti minnti mig á frásögn konu nokkurrar frá Kosovo sem býr nálægt námum. Hún á dreng sem fæddist með óvenjumikið magn blýs í blóðinu, sem rakið er til  mengunar frá námunum. Íbúar fórnuðu umhverfisöryggi fyrir efnahagslegt öryggi. Nú er búið að loka námunum, efnahagslega öryggið er horfið út í veður og vind, en afleiðingar mengunarinnar eru enn til staðar og eitthvað sem íbúar þurfa að kljást við. Já, þessi veröld er stundum snúin...

Kveðja til Síberíu 

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband