Hófsemdarfólk

Hef að undanförnu verið að lesa nokkur blogg þar sem fram kemur alltaf einhvers staðar í textanum að viðkomandi sé hófsemdin uppmáluð. Yfirleitt er það ýmist inngangur eða eftirmáli að frekar harðneskjulegum skoðunum á vinstri grænum.

Átta mig ekki á slíkum árásum hófsemdarfólksins þar sem við í VG erum einmitt þekkt fyrir að mega ekkert aumt sjá án þess að vilja stumra yfir því.

Það hefur ekki þótt ljóður á ráði fólks fram til þessa.


ADSL Símans

Nú er mér gjörsamlega ofboðið. Fyrir nokkrum árum þá var hringt í mig frá Símanum og mér boðið ADSL áskrift fyrir tölvuna, sjónvarpið og símann. Það sem fékk mig til að taka tilboðinu fyrir utan meiri hraða, betri þjónustu og ég veit ekki hvað, var að fá að fylgjast með enska boltanum í beinni undir styrkri stjórn sparkspekinga. Mánuði seinna var því ævintýri lokið, en fékk í sárabætur aðgengi að því helsta sem er að gerast í lífi stærstu kvikmynda- og poppstjarna samtímans, ásamt sjónvarpsrás helgaðri boðun hins heilaga orðs. ekki alveg það sem ég ætlaði mér, en sjálfsagt mun meira gefandi. Nú er sú kristilega rás ekki einu sinni í boði lengur.

Þegar þetta var sett upp kom afskaplega elskulegt fólk til að tengja græjurnar. Ráter og spennubreytar, snúrur og allra handa kassar með blikkandi ljósum þekja nú hjá mér stofugólfið. Ég er með fjarstýringar úti um allt, ein til að kveikja á sjónvarpinu, önnur til að hækka í því og komast inn á hasarmyndaleiguna og fullorðinsrásina.

Verst er að frá upphafi hefur þetta bévítans drasl ekki virkað sem skyldi. Þegar heimilissímanum er svarað, dettur tölvan út og sjónvarpið fellur frá tímabundið, og ef hrært er í tökkum fjarstýringana á meðan kemur dótið ekki inn aftur fyrr en eftir dúk og disk. Á dögunum hringdi ég í þjónustuverið og það ábyggilega í hundraðasta sinn. Þar kom í ljós eftir tveggja eða þriggja ára áskrift að einhver sía var ónýt. Ég keypti aðra og skipti um. Ekkert betra þrátt fyrir það.

Í kvöld gekk svo alveg fram af mér þegar sjónvarpið virkaði bara alls ekki. Þegar ég hringdi og vildi fá leiðbeiningar kom í ljós að búið var að taka sjónvarpið úr þjónustupakkanum.

Skýringin: Jú, vegna tæknilegra mistaka.

ÞAÐ ER EKKERT ANNAÐ.


Fjármál Framsóknar?

Sá á blogginu að Björn Ingi var að kveinka sér undan því að fjármál stjórnmálaflokkana eigi að vera gegnsærri en nú er. Telur hann það hina mestu ósanngirni að Framtíðarlandið skuli geta auglýst málstað sinn með jafn dýrum hætti og sjónvarpsauglýsingar eru, að auglýsingar Framtíðarlandsins séu til þess gerðar að senda rammpólitísk skilaboð og beina umræðunni í ákveðna átt og það sem honum þykir nú verst af öllu að Framtíðarlandið þurfi ekki að gera grein fyrir hvaðan fjárframlögin koma.

Einnig svíður honum að þar sem Framsóknarflokkurinn er pólitísk samtök sé hann eins og Björn Ingi orðar það: ,,múlbundnir í kerfi og geta sig hvergi hrært.´´

Nú veit ég ekki hvort Framtíðarlandið muni gefa upp hvaðan fjárframlög til baráttu þeirra koma. Á hinn bóginn er þetta nokkuð merkilegt framlag frá Birni Inga, þar sem framsóknarmnönnum hefur hingað til þótt þessi skipan mála hin eðlilegasta.

Um leið og ég óska Birni Inga og öðrum framsóknarmönnum til hamingju með að vera kominn í hóp þeirra stjórnmálaafla sem munu gera fulla grein fyrir fjárreiðum síns flokks í komandi kosningabaráttu, væri ekki úr vegi að hann upplýsti almenning um það hvaðan fjárframlög komu og hversu há einstök framlög voru fyrir kosningabaráttu vegna síðustu borgarstjórnarkosninga.

Ekki myndi almenning heldur saka stórlega að fá sömu vitneskju vegna síðustu alþingiskosninga.


Aðgengi að Bakkusi

Fór í ríkið s.l. laugardag. Eftir að hafa gengið framhjá rekkunum með rauðvíninu, hvítvíninu og brenndu drykkjunum endaði ég í bjórnum. Keypti mér eina kippu af íslenskri framleiðslu, og rauðvínsflösku með steikinni fyrir kvöldið. Ég hefði örugglega komist í ríkið alla virku dagana þar á undan, ef mig hefði langað til að svala þorstanum. Kom einnig við í matvörubúð og keypti inn til heimilisins það sem þurfti, s.s. morgunkorn, brauð og mjólk.

Í ríkinu var enginn undir tvítugu enda ekki heimilt að selja þeim sem eru undir þeim aldri áfengi. Þeir sem afgreiddu mig og ráðlögðu hvað kaupa skyldi var mikið fagfólk á besta aldri.

Ég verð að viðurkenna að mér fannst ekki brotið á frelsi mínu þó ég yrði að ganga um 10 metra aukalega til að ná mér í áfengi. Átta mig ekki alveg á þessari umræðu um höft og skerðingu á persónufrelsinu þó að vín og matur sé ekki afgreitt í sömu búð.

Þegar mér finnst að mér þrengt hvað þetta varðar ætla ég rakleitt á Vog þar sem einhverjar tugþúsundir hafa leitað sér hjálpar vegna áfengisfíknar þó svo að aðgengi að víni sé svona slæmt.

Þegar ég var í barnaskóla kom eitt sinn fræðingur sem hafði fundið á eigin skinni hvernig er að vera háður áfengi. Hans ráð var að ef líf okkar unglingana færi að snúast í ræðu og riti um áfengi, fyllerí og hvernig best væri að nálgast vökvann væru það greinleg merki þess að þá þyrftum við að leita okkur hjálpar.

Þetta á kannski við enn í dag?


Rafknúið Ísland

Árið 2006 voru samkv. Hagstofu Íslands flutt inn u.þ.b. 165.000 tonn af bensíni til að knýja bifreiðar. CIF verðmæti (komið að hafnarbakka á Íslandi)  þessa innflutnings voru 7,5 milljarðar. Þá er ótalið eldsneyti vegna díselbíla og verðmæti þess innflutnings.

Þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði viðtal áðan á gömlu Gufunni þar sem m.a. kom fram að nú til dags er ekkert því til fyrirstöðu að aka um á rafmagnsbílum. Tæknin er til staðar, langdrægni og hraði slíkra bifreiða er nægjanlegur hverjum meðalmanni og ekki þarf að velkjast í vafa um að rekstur slíkra bifreiða er mun hagkvæmari en hinna hefðbundnu bifreiða sem við flest ökum um á í dag. Að vísu þarf að byggja upp kerfi fyrir slíkar bifreiðar, hleðslustöðvar o.s.frv.

Nú þegar við Íslendingar eigum nægjanlega hreina orku til að fóðra slíkar bifreiðar á, er forvitnilegt að hugsa til þess að stjórnvöld hafa ekki lagt neina áherslu á að byggja upp slíkt kerfi og hvetja þannig almenning til að skipta sprengihreyflinum út fyrir rafmagnsmótorinn.

Það er einnig forvitnilegt að hugsa til þess að þegar umræðan er öll á þá lund að þjóðir heims þurfa að taka höndum saman til að draga úr útblæstri hinna s.k. gróðurhúsalofttegunda, er ekki nokkurt lífsmark að sjá hjá stjórnvöldum til að innleiða almenna notkun á rafmagnsbílum.

Það er líka forvitnilegt til þess að hugsa að stjórnvöld vilji frekar nota þá orku sem við höfum yfir að ráða til að knýja álver og aðra stóriðju, en að ráðstafa orkunni til verkefna sem þessara. Það er bæði eftir miklu að slægjast hvað varðar skyldur okkar í umhverfismálum, og fjárhagslegur ávinningur er einnig mikill. Það að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti hefur í för með sér hagstæðari vöruskiptajöfnuð við útlönd og eykur einnig hagvöxt ef innlendir orkugjafar eru notaðir þess í stað.

Miðað við þær hugmyndir sem eru í gangi um uppbyggingu álvera og þá ráðstöfun orku sem slíkt hefur í för með sér, verður varla mikið eftir til verkefrna sem þessa.


Sjálfhverfur

Brá töluvert þegar ég heyrði í tíufréttunum að námaslys hefði orðið í Kemerovohéraði í Síberíu. Líklega erum við ekki mörg sem hjuggum eftir þessari frétt. Ef hún hefði verið um námaslys í Þýskalandi eða á öðrum stað hefði ég ekki farið inn á BBC til að athuga málið betur. Og ástæðan. Jú, á hlut í fyrirtæki (ekki námu þó) sem er staðsett þarna, og því snerta svona fréttir úr héraðinu mann.

Það er ábyggilega rétt að fréttir af hörmungum snerta mann ekki lengur ef þær eru ekki frá svæðum eða af fólki sem maður þykist þekkja eða tengist.

Svona er maður þá sjálfhverfur.


Fasískar aðferðir íslenskra stjórnvalda

Í Kastljósinu í gær komu fram hlutir frá Guðnýju Halldórsdóttur sem ekki þættu beint kræsilegir í venjulegu lýðræðisríki. Að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skyldi senda erindi þess efnis til ríkisstjórnar annars ríkis að einn af hennar eigin þegnum væri hættulegur maður út frá þjóðaröryggi er hreint með ólíkindum. Sérstaklega í ljósi þess að þarna var um að ræða mann sem hafði sér það eitt til saka unnið að rita bækur og hafa skoðanir sem ekki voru valdhöfunum þóknanlegar. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að Halldór Kiljan, sem var fórnarlamb þessara ofsókna af hendi íslenskra valdhafa, mun ekki hafa staðið í skipulagningu hryðjuverka, njósnað fyrir erlend ríki eða aðhafst nokkuð það sem hægt væri að flokka sem starfsemi er ógnaði íslenska lýðveldinu. NEMA NÁTTÚRULEGA AÐ RITA BÆKUR.

Það er einkar kaldhæðnislegt að þau öfl sem létu þessi boð út ganga, voru að sögn að standa vörð um vestræn gildi (hvað sem það nú merkir), fordæmdu ritskoðun í austurvegi og fangelsun þeirra sem höfðu aðrar skoðanir en stjórnvöld í Ráðstjórnarríkjunum. Ekki hefur nú samkvæmninni verið fyrir að fara í orðum og gerðum.

Ekki svo mörgum árum fyrir en þetta gerðist, logaði Evrópa í átökum sem að hluta til voru vegna ofsókna af þessum toga. Þýskaland nasismans og Ítalía fasismans voru á öðrum póli þeirra átaka. Þjóðríki sem byggðu sitt skipulag á ofsóknum, m.a. gegn rithöfundum sem ekki voru valdhöfunum þóknanlegir og ótta þegnana við að hafa sjálfstæðar skoðanir og láta þær í ljós. Þó þessi birtingarmynd sem kristallast í tilfelli Halldórs Kiljans hafi verið öllu vægari, þá er hér í raun um sömu hugmyndafræðina að ræða.

Það er engin afsökun að tíðarandinn hafi þá verið með þessum hætti, og erfitt að setja sig í spor þeirra sem voru uppi á þeim tíma er þetta gerðist. Fasískur hugsunarháttur er aldrei afsakanlegur, hvort sem hann átti sér stað fyrir ófriðinn mikla í Evrópu eða áratugnum seinna.

Þeim tugum milljóna sem létust af völdum seinni heimstyrjaldarinnar og þeim tugum milljóna sem voru örkumluð líkamlega og andlega eftir þau átök er ekki mikil virðing sýnd með slíkum ummælum. Þessu fólki ásamt sviðinni jörð, borgum og bæjum sem voru lögð í rúst var ekki fórnað til að stjórnmálamenn uppi á Íslandi kæmu fram með þeim hætti sem hér um ræðir.

Það þarf greinilega að gera upp fortíðina víðar en hjá íslenskum vinstrimönnum. A.m.k. fer ekki miklum sögum af landráðum af þeirra hálfu.


Ofurþreytt framsóknaríhald

Horfði á Silfrið hjá Agli fyrr í dag. Kom s.s. fátt á óvart í umræðum þeirra Össurar, Einars, Sifjar og Steingríms. Og þó. Í stað þess að reyna að státa sig af einhverjum afrekum Framsóknarflokksins, fór allur tími Sifjar (og gott betur) í að reyna að þjarma að Steingrími J. Vonlaust frá upphafi eins og gefur að skilja. Reyndar spurði konan mín mig að því hvort við hefðum ekki verið að horfa á sama þáttinn. Gæti verið meðfætt óþol gegn nýframsóknarmönnum sem litar upplifun mína af þættinum.

Á hinn bóginn fór það ekki á milli mála að óskaríkisstjórn þeirra Einars og Sifjar er sú sama og er núna við völd. Eins og fram kom hjá Sif þá er það eina sem vantar upp á að svo geti orðið meira fylgi til Framsóknarflokksins. Guð almáttugur og allar góðar vættir forði okkur frá því. Einnig kom fram hjá þeim Einari og Sif þessi vanalega tugga um að betra sé að tveir flokkar séu við stjórnvölinn en þrír, að ef Vg komist í stjórn þá fari allt lóðbeint til helvítis á mettíma og litið um leið fram hjá þeim staðreyndum að framsókn og íhaldið eru nú að verða búin að hálfdrepa helming þjóðarinnar með okurvöxtum, viðskiptahalla og verðbólgu. Held að það sé kominn tími til breytinga hvort sem það verður tveggja eða þriggja flokka stjórn að afloknum kosningum.

Það leit hreinlega út fyrir að það væri komin þreyta, leiði og vonleysi í þau Einar og Sif. Er þá ekki kominn tími til að leyfa blessuðu fólkinu að hvíla sig vel og lengi?

Það var alveg greinilegt á þeim Steingrími J og Össuri að þá er farið að hlakka til að taka á í kosningabaráttunni. Vona innilega að þeim gangi allt í haginn.


Olíufurstunum sleppt

Það var skrautlegt að horfa á fréttir frá Hæstarétti í sjónvarpsfréttum RÚV fyrr í kvöld. Verjendur sakborninga bæði í Baugsmálinu og tala nú ekki um í máli forstjóra olíufélagana greiddu sækjendum þung högg. Ekki virðist lengur um að ræða hvað er rétt eða rangt, heldur hvernig hægt er að þæfa, þvæla og túlka sannleikann á sem afbakaðastann hátt.

Miðað við stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi má reikna með að olíufurstarnir sem voru sýknaðir af þjófnaði fyrr í dag séu allir skírðir og fermdir í bak og fyrir. Það væri kannski við hæfi að taka aðra slíka umferð á þeim svo þeir geti rifjað upp blessað boðorðið um að maður skuli ekki stela.

Og farið eftir því.


Vinstrimartröð íhaldsins

Nú beina flestir sjálfstæðismenn sjónum að þeim s.k. vinstristjórnum sem hafa setið á síðustu öld og kenna þeim um verðbólgu, hátt skatthlutfall og annað sem aflaga fór í efnahagsmálum á síðustu öld, og benda gjarnan á ríkisstjórnarsetu Steingríms J, Svavars Gests og forseta vors sem hættulegt fordæmi. Vilja meina að ef VG verði í næstu ríkisstjórn fari allt á heljarþröm.

Ef allrar sanngirni er gætt þá var það nú einmitt sú stjórn sem lagði grunninn að lækkun verðbólgu, lægði öldurnar á vinnumarkaðinum, tökum var náð á fjárlagahallanum o.fl. sem þykir góð latína. Síðasta vinstristjórn fékk áframhaldandi umboð kjósenda, en af einhverjum ástæðum gekk Jón Baldvin í eina sæng með íhaldinu og gekk þar þvert gegn vilja kjósenda.

Svo er það önnur saga að núna er verðbólgan komin á skrið, vaxtastig með eindæmum hátt, utanríkisverslunin óhagstæð, lífskjör margra hópa í samfélaginu hafa versnað til muna, eignum þjóðarinnar komið í hendur fárra, ekki hefur ,,skattpíning´´ almennings lagast og svo mætti lengi telja af afrekaskrá ríkisstjórna undir forsæti Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað er aðalmartröð Sjálfstæðisflokksins og meðreiðarsveina hans að missa frá sér öll völd og áhrif frekar en að bæta hagsæld allra landsmanna. Þröngir hagsmunir fjármagnsins ráða þar ferð og ekkert annað.

Ég held að hlutirnir geti nú ekki annað en skánað ef skipt verður um stjórn og VG eigi þar hlut að máli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband