Samfylkingin ætti að friðmælast við VG

Það liggur alveg ljóst fyrir að til að vinstri stjórn verði mynduð þarf liðstyrk VG, og til að svo verði þarf hreyfingin að spila þar mjög stórt hlutverk. Á sama hátt þarf Samfylkingin að vera þátttakandi í slíku samstarfi. Því skyldi maður a.m.k. álíta að frambjóðendur og stofnanir og aðildarfélög þessara flokka stæðu saman í komandi kosningabaráttu, eða í það minnsta einbeittu sér frekar að pólitískum andstæðingum sínum í málflutningi sínum. Því þykir mér það sárt að hlusta á einstaka frambjóðendur Samfylkingarinnar, s.s. Árna Pál Árnason og einhver nýstofnuð félög eins og unga jafnaðarmenn í Garðabæ og Álftanesi hafa ekkert annað fram að færa en skítkast, dylgjur og málflutning blandaðan einhverri heift í garð VG.

Það má vel vera að slíkur málflutningur henti vel í prófkjörum Samfylkingarinnar til að ná árangri í bland við uppspuna þess efnis að erlend ríki hafi talið hrokafulla aðstoðarmenn einstakra ráðherra það merkilega að þurft hafi að hlera samtöl þeirra. Í alvöru pólitík þarf hins vegar að hafa meira fram að færa en slíkt gjálfur.

Eins og sést á framsóknarmönnum þá er þetta akkúrat það sem þeir eru að sækjast eftir. Að stjórnarandstöðuflokkarnir beini kröftum sínum hver að öðrum í stað þess að einbeita sér að kosningabaráttu þar sem höfuðandstæðingarnir og verk þeirra og hugmyndafræði eru teknir fyrir. Enda þeirra hagsmunir að svo sé. Sama má náttúrulega segja um Sjálfstæðisflokkinn, þar eiga menn þá heitustu ósk að VG og Samfylkingin djöflist eins og kostur er hvorir í öðrum.

Er ekki mál til komið að þeir frambjóðendur Samfylkingarinnar sem hafa hagað sér svona fari að snúa sér að alvöru pólitík í stað upphrópana út í loftið. Möguleikar í vonlítilli baráttu sumra þeirra til að komast á þing aukast ekki við þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband