VIÐ og ÞEIR

Í gærkvöldi eftir að annað heimilisfólk var gengið til rekkju, fór ég á rásaflakk í sjónvarpinu. Stoppaði á stöð sem heitir Omega. Já, ég af öllum mönnum. Það verður að segjast að þessi stöð og efnistök hennar eru með afskaplega fróðlegum hætti. Þarna sátu þrjár manneskjur, Ólafur, ásamt þeim Kristni og Dísu frá Keflavík. Er nú enn að velta fyrir mér hlutverki Dísu þar sem hún sagði nú ekki nema eina eða tvær setningar allan tímann, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem mér þótti hins vegar vera merkilegt í þeim umræðum sem þarna fóru fram, eða öllu heldur það sem lesa mátti út úr þeim, var hinn mikli ótti og fyrirlitning á hinum íslamska heimi og hinu óþekkta. Þessi skil á milli OKKAR og ÞEIRRA, en m.a. var vitnað til þess að ÞEIR væru orðnir 220.000 í Danmörku, vegna ÞEIRRA krafna í skólum í Noregi sem börn ÞEIRRA sækja mega kennarar ekki bera kross um hálsinn, ÞEIR vilja ekki friðmælast við Ísraelsmenn o.s.frv. o.s.frv.

Fyrirlitning þátttakenda á menningu múslíma, sem er sprottin úr sama umhverfi og kristindómurinn var átakanlegur. Fullyrðingar um að efnahagur fólks sem ekki byggi í hinum kristna heimi væri lakari sökum þess að ÞETTA fólk sé múslímar, (búddistar, hindúar og trúi á stokka og steina) komu einnig fram með skýrum hætti. Það að um er að ræða fyrrverandi nýlendur sem voru mergsognar af vesturlöndum spilar þar enga rullu.

Þegar ég hélt að komið væri að andartaki umburðarlyndisins þegar þáttarstjórnandinn talaði um að hann væri ekki sammála gerðum núverandi forsætisráðherra Ísraels, klykkti stjórnandinn út með að segja að hann hefði átt að klára dæmið af meiri hörku í innrásinni í Líbanon nú síðast. Þar með fór það.

Þó að Ólafur, Kristinn og Dísa séu vonandi bara að tala út frá skoðunum og ,,vissu´´ örlítils hóps íslensku þjóðarinnar, og því áhrifalaus sem slík, er annað mikið áhyggjuefni.

Ég hef það á tilfinningunni að þeir sem ráða ríkjum í eina stórveldi heimsins í dag, séu nokkurn veginn á þessari línu. Fyrirlitning á ÞEIM sem aðhyllast íslamska trú, ótti við ÞÁ sem eru öðruvísi ásamt gróðahyggju er afskaplega varhugaverð blanda í fari ráðandi afla.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Gott hjá þér að vekja máls á Omega. Ég hef stundum verið að hugsa um að senda Ríkissaksóknara bréf um þetta mál. Veit hins vegar að það er vonlítið. Málflutningurinn er hins vegar þannig að ég held bara að stjórnaskrárvarinn réttur manna sé brotinn með því. Hvað myndi gerast ef einhver stundaði svona níð um kristna trú og kristna menn. Ég er trúaður. Það er ein af kjölfestunum í lífi mínu; trúin á Jesú krist. Stunda meðal annars samkomur reglulega í kristnum félagsskap. Þetta fólk á Omega er á mörkum þess að geta talið kristið. Þetta eru þvílíkir Lögmálsdýrkendur að mér er nær að halda að gamla gyðingatrúin og guð gamla testamentisins standi því nær hjarta en Jesú Kristur! Hvað sagði félagi Jesú, jú hann sagði: Vei yður, fræðimenn og farísear! Þetta lið er eins og "klingjandi bjalla". Skortir bæði kærleika til manna og Guðs!

Til að upplýsa þig um stöðu Dísu: Konur eiga ekki að hafa sig í frammi á opinberum stöðum, heldur sitja hljóðar og hlusta. Skv. lögmáli Lögmálsdýrkendanna!

Auðun Gíslason, 23.3.2007 kl. 11:49

2 Smámynd: Steingrímur Ólafsson

Þakka þér athugasemdina Auðun. Nú er ég ekki í neinu trúfélagi, enda verður fólk að ég tel að trúa á viðkomandi guð til að svo geti orðið. Í þeim trúarbrögðum sem eru ríkjandi er bent á hvernig fólk á að breyta. Umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki er m.a. það sem talið er til góðra gilda. Ég tel að ekki þurfi að spyrða sig við ákveðna trú til að reyna að breyta þannig.  Það er frekar sorglegt að horfa upp á fólk sem dreifir níði, óhróðri og hatri í nafni trúar sinnar. Skiptir þá ekki máli hvaðan öfgarnar koma, eða hvort þær eru settar fram af ,,trúuðum´´ eða trúlausum.

Steingrímur Ólafsson, 23.3.2007 kl. 12:04

3 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Fínn pistill hjá þér Steingrímur. Það kom fyrir á svona rásaflakki að maður festist á omega, og eftir stutta stund fór maður að líta í kringum sig, bara til að fullvissa sig um að enginn vissi hvað maður væri að gera. Umræðurnar eru einmitt svo sorglega oft með þeim hætti að maður hreinlega skammast sín fyrir að horfa.  Það versta er auðvitað, eins og þú bendir réttilega á, þessi eilífa flokkun í við og þeir, góðir og vondir, kristnir og "heiðingjar".  Þetta viðhorf er ekki til þess að bæta samskipti milli ólíkra hópa.

Guðmundur Örn Jónsson, 23.3.2007 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband