Á refilstigum

Á dögunum komst yngsti meðlimur þeirra er hafa heimilisfesti hér á Ægisíðu undir mannahendur. Því er ekki að neita að okkur hinum brá töluvert við þetta og hétum því að ala viðkomandi betur upp, enda smán að því fyrir fjölskylduna að þetta skyldi henda.

 

Þar sem við erum opin og líberal í uppeldinu, þá höfðum við forráðamennirnir ekki miklar áhyggjur af því þótt þessi fjölskyldumeðlimur skilaði sér ekki heim um nóttina eins og hann er vanur. Um morguninn vorum við þó farin að hugleiða hvað gæti hafa komið fyrir, en þar sem við erum frekar frjálslynd og treystum okkar fjölskyldumeðlimum til að lenda ekki á refilstigum voru áhyggjurnar ekki miklar. Seinna um daginn var svo hringt í spúsu mína og hún spurð að því hvort hún væri A Hansen. Þar sem hann Hansen minn er eyrnamerktur samkvæmt  reglugerð frá borginni gátu starfsmenn Kattholts fundið út í hvaða símanúmeri helst væri hægt að ná í forráðamann hans ef í nauðir ræki.

 

Á heimasíðu Kattholts stóð að umræddur köttur væri gulbröndótt læða sem fundist hefði á Ægisíðunni. Nú er það svo að veiðimaður á vegum borgarinnar veiddi köttin í búr með s.k. felliloki, svo að í sjálfu sér týndist Hansen aldrei. Sama veiðimanni er nokkur vorkun í því að hafa kyngreint Hansen ranglega, en í einni ferð minni til Síberíu greip kona mín til þess óyndisúrræðis að gelda ræfilinn, eða að láta gelda hann öllu heldur því ekki gerði hún það sjálf.

 

Lét hún gera þetta þrátt fyrir að ég hefði lagt blátt bann við því og skýrskotað til þess að ég væri húsbóndi á mínu heimili og að orð mín væru lög öðrum lögum æðri. Reyndar held ég að þessi verknaður hafi ekki beinst einvörðungu gegn kettinum, heldur einnig verið e.k. ábending til mín og míns tals um húsbóndavald. Eftir voðaverk þetta hef ég líka verið afskaplega rólegur og tillitssamur. Og skyldi engan undra.

 

Þegar við leystum Hansen út þurftum við að greiða 5.800kr. Af þeirri upphæð fékk Kattholt heilar 800kr., en borgin hélt eftir 5.000kr. Væntanlega til að geta greitt fyrir fleiri felligildrur, sem aftur verður til þess að fleiri kettir verða fangaðir.

 

Það sem Hansen hafði brotið af sér var að hafa þvælst inn í garð hjá einhverri vesalings konu, ásamt Pésa vini sínum sem var nappaður við sama tækifæri, og væntanlega borið á eitthvert beð frúarinnar. Þessi húsmóðir í Vesturbænum hefur vonandi átt rólega og góða nótt undir hlýrri sæng á meðan kattarkvikindin hýrðust úti í rigningunni, innilokaðir í búrum sínum.

 

Það er hreint með ólíkindum hvað fólk hefur lítið fyrir stafni ef það nennir að ergja sig yfir nokkrum heimilisköttum hérna vestur í bæ. Og ekki er það síður merkilegt að borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar skuli nenna að eltast við sílspikaðar kisur á næturrölti. Því ekki væri þetta hægt án þeirra atbeina. Það eru reglugerðir um merkingar á eyrum, þeir örmerktir líkt og um Orra frá Þúfu væri að ræða og þeir skráðir í bak og fyrir. Í sjálfu sér er það hið besta mál að kettir skuli skráðir og að eigendum þeirra beri skylda til að hugsa vel um þá, fara með þá til dýralæknis í pillur og sprautur og sjá til þess að þeim líði vel.

 

En að samþykkja reglur um lausagöngu katta, gera út veiðimenn á heimilisketti og annað í þeim dúr er farið að ná langt út yfir það sem eðlilegt getur talist.

 

Er nema von að núverandi forseti borgarstjórnar vilji fjölga borgarfulltrúum ú 15 í 21 sökum mikilla anna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband