16.3.2007 | 10:42
Einar K á hálum ís
Merkileg er túlkun Einars Kristinns Guðfinnssonar á skoðanakönnun Capacent Gallup í Mogganum í dag. Eins og hann segir þá vilja einungis 2,2% kjósenda að V, S og F myndi saman stjórn að loknum kosningum. Fær hann þannig út að kaffibandalagið - eða stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig, njóti ekki trausts. Vill meina að þetta sé hrakleg útreið fyrir stjórnarandstöðuna.
Svona talnaleikfimi gengur ekki upp. Hverjum dytti t.d. í hug að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hefði hlotið hraklega útreið vegna þess að einungis 2,8% þeirra sem tóku þátt í könnuninni vildu sjá D og F saman sem sína óskaríkisstjórn. A.m.k. túlkar Einar K könnunina ekki þannig og er það í sjálfu sér merkilegt nokk.
Það er náttúrulega grafalvarlegt mál að sá ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál sé ekki betur að sér í hvernig á að túlka tölur og prósentur en raun ber vitni.
16.3.2007 | 09:49
VG og Samfylkingin saman í stjórn
Samkvæmt Mogganum í dag þá vilja flestir landsmenn að VG og Samfylkingin sitji saman í næstu ríkisstjórn. Þ.e. fari með völdin í landinu. Að sjálfsögðu hugnast okkur sem styðjum VG sá möguleiki hvað best. Þó er það ekki svo að aðrir flokkar séu útilokaðir ef þessir tveir flokkar ná ekki saman, en yfirlýsingar forystumanna VG eru á þá leið að fyrst muni þeir láta reyna á það til fullnustu að ná saman með Samfylkingunni. Nokkuð skýrt hvað menn vilja á þeim bænum.
Ef litið er t.d. til skrifa Árna Þórs Sigurðssonar hér á blogginu, þá er ekki neinum vafa undirorpið að svo er. Einnig vekur það athygli að í skrifum sínum heggur hann sjaldan eða aldrei til Samfylkingarinnar, svo nokkuð ljóst er að þar fylgir hugur máli.
Til að þessir tveir flokkar nái meirihluta, þurfa þeir eins og gefur að skilja að ná meirihluta fylgis kjósenda til sín. Og ekki nóg með það, heldur það miklu fylgi að traustur meirihluti verði á þingi. Sá trausti meirihluti næst ekki með tilflutningi á fylgi milli VG og Samfylkingarinnar, heldur með því að höggva í fylgi annarra stjórnmálaflokka. Þessu gera Árni Þór og fleiri í VG sér greinilega fyrir, og tala því með kurteisum og málefnalegum hætti til Samfylkingarinnar, enda ekki gott að vera á biðilsbuxunum með hnjóðsyrði á vör.
Vonandi munu sem flestir í Samfylkingunni einnig gera sér þetta ljóst, og tala með þeim hætti til VG eins og þeir vilji starfa með hreyfingunni. Þó að einstaka frambjóðendur Samfylkingarinnar í hugsanlegum baráttusætum hafi látið þung orð falla, er engin ástæða fyrir þá eða aðra að fara strax á taugum. Enda er það svo að hagsmunir þjóðarinnar hljóta að vera í fyrirrúmi en ekki einstaka frambjóðenda.
Þó svo færi að Samfylkingin yrði ekki stærra aflið í því samstarfi sem hér um ræðir, gæti hún engu að síður haft mjög mikil áhrif til hins betra fyrir land og lýð.
15.3.2007 | 21:30
Opnaðu munninn Jens
Það að börn niður í eins árs séu með skemmdar tennur og mýmörg dæmi um börn sem eru þriggja ára séu með hættulegar sýkingar í munni vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á að kosta eftirlit og tannlækningar eru virkilega sláandi fréttir. Sérstaklega í ljósi þess að fyrir ekki svo mörgum árum var Ísland talið dæmi um það hvernig ætti að standa að tannvernd og tannheilsa barna með því besta sem þekktist í heiminum.
Í dag virðist sem að um mikla afturför sé að ræða í þessum efnum, og að sjálfsögðu bera þeir stjórnmálaflokkar sem ráðið hafa ríkjum undanfarin áratug fulla ábyrgð á því hvernig komið er. Já, það vantar ekki stóru orðin hjá framsókn og íhaldi þegar fulltrúar þessara flokka hreykja sér af því að svo og svo mikið sé vel gert í heilbrigðismálum og að almenn velsæld hafi aukist.
Miðað við þessar alvarlegu fréttir ættu þeir Geir og Jón, arftakar Karíusar og Baktusar, að fara ögn varlegar í yfirlýsingagleði sinni um hvað hér sé allt með miklum blóma. Ljóst er að svo er ekki á meðan fjöldi fólks hefur ekki efni á að láta huga að tannheilsu barna sinna. Það er einnig deginum ljósara að tannheilsa foreldra barna þar sem svona er komið hlýtur einnig að vera með versta móti, því flestir foreldrar láta heilsu barna sinna framar í forgangsröðina en sína eigin.
15.3.2007 | 09:27
Blogg = klám
Það barst í tal við eldri frænku mína í gær að ég væri byrjaður að blogga á netinu. Í stað þeirra jákvæðu viðbragða sem ég hélt að það myndi valda varð reyndin önnur. Henni blöskraði þetta siðleysi mitt og þótti illa fyrir mér komið. Svo væri þetta líka hlutur sem menn ættu a.m.k. að sjá sóma sinn í að vera ekki að básúna út um allar koppagrundir.
Það tók nokkra stund að leiðrétta misskilninginn sem fólst í því að margir þeirra sem ekki nota netið halda að þar sé ekkert aðhafst nema það tengist klámi.
Ég segi nú bara eins og frænka: ,,Jesús minn, hjálpi mér allir heilagir.''
14.3.2007 | 10:20
Síbería -45 gráður
Þar sem ég er byrjaður að huga að næstu ferð minni til Síberíu (sjálfviljugur), hef ég verið að athuga hitasitgið á svæðinu. Sextán gráður fyrir neðan frostmark er ekki beint aðlaðandi fyrir sólþyrstan Íslending, en það verður að gera fleira en gott þykir. Þegar ég byrjaði á brölti mínu í austurvegi í febrúar fyrir tveimur árum var hitastigið frá -35 niður í -45 þann tíma sem ég dvaldi þar ásamt félaga mínum. Okkur þótti þetta frekar svalt, og ofbauð reyndar þegar okkur var boðið í vetrarbaðferð að hætti heimamanna.
Þarna er yfirleitt nokkra mánuði á ári fimbulvetur, og getur hitastigið farið niður í -57 þegar kaldast er. Á sumrum getur hitinn hins vegar farið upp í 45 í plús, svo öfgarnar eru miklar hvað hitafar varðar.
Þennan veturinn hefur hins vegar hitastigið sjaldan farið niður fyrir -20 gráður, og þegar ég var þarna úti í nóvember og aftur í febrúar var hitastigið yfirleitt frá frostmarki og niður í -10. Í eigingirni minni þótti mér þessi þróun ekki svo afleit, og þegar ég talaði um þetta við félaga mína þarna úti þótti þeim þetta ekki sem verst svo langt sem það náði. Jú, vissulega væri auðveldara að stunda vinnu og annað daglegt amstur, en þetta væri engu að síður mjög afbrigðilegt.
Í ljós kom að þeir höfðu miklar áhyggjur af þessari þróun. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á náttúruna? Hvað verður um sífrerann sem gerir það að verkum að hægt er að rækta á sumrum allt frá næpum til hveitis? Hvaða áhrif hefur þessi þróun á dýralíf á svæðinu, s.s. birni og veiðidýr? Hvaða áhrif hefur þetta á skóga svæðisins og annan gróður? Hvaða áhrif hefur hlýnunin á undirstöður bygginga, vega, járnbrauta og annarra mannvirkja? Það vill nú þannig til að allar lífverur á svæðinu hafa aðlagað sig að því veðurfari sem er alla jafna ríkjandi.
Því var niðurstaðan sú að þeir félagar mínir vildu gjarnan hafa hitastig og annað náttúrufar eins og það hefur verið í þúsundir ára. Þannig hefði þetta verið og þannig ætti þetta að vera.
Ég held að fólk sem vill leggja það á sig að lifa við við algeran skítakulda mánuðum saman til verndar lífsvenjum sínum, en lítur ekki á það sem sérstök hlunnindi að hitastigið hækki um 20 gráður yfir veturinn eigi hrós skilið.
14.3.2007 | 01:42
Húrra fyrir alþjóðavæðingunni.
Ósköp hljóta Indverjar þeir sem sáust í þætti á RÚV í gær og voru upp að mitti í lút og sýrubaði að vera hamingjusamir og þakklátir að fá að vinna fyrir 340kr. á dag (yfirvinna meðtalin) við að framleiða tau fyrir IKEA og Rúmfatalagerinn danska. Í kaupbæti fá þeir líka útbrot, öndunarfærasjúkdóma, krabbamein og styttri líftíma en ella svo nokkuð sé nefnt af kokteilblöndunni. Hamingja og þakklæti þeirra bænda sem fá afrennslið frá spuna- og eiturefnaverksmiðjunum í grunnvatnið og áveitur sínar hlýtur einnig að vera ótakmarkað.
En af hverju nefni ég hamingju og þakklæti verkafólks í sömu andrá og þessi mannréttindabrot sem stórfyrirtæki á vesturlöndum láta viðgangast og taka þátt í með beinum og óbeinum hætti og sýnd voru í imbanum í gær. Kannski vegna þess að frjálshyggjuliðið á Íslandi hefur notað það sem rök fyrir að fyrirtæki leita í sífellt auknum mæli til hinna s.k. þriðja heims landa eins og Indlands, til að láta verkafólk framleiða vörur sem ódýrast. Ekki þykir þessu liði það tiltökumál að aðbúnaður og vinnuskilyrði sé með þeim hætti að harðsvíruðustu þrælahöldurum fyrri tíma hefði jafnvel ofboðið.
Ég ætla rétt að vona að frjálshyggjuliðið hér heima hafi haft þessa skoðun sökum einfeldni og fávisku, en ekki af hreinræktaðri mannvonsku. Hafi haft skrifa ég, því að eftir að hafa horft á þennan þátt í sjónvarpinu í gær hljóta þeir sem predika að hamingja og þakklæti sé efst í huga þeirra sem þurfa að vinna við þessi skilyrði, að hugsa sig tvisvar um áður en þeir halda áfram að reyna að breiða út þetta líka fagnaðarerindið.
Í þættinum kom einnig fram áskorun til okkar neytenda í hinni ríku Evrópu að kaupa ekki vörur sem framleiddar eru með þessum hætti. Ég mun að minnsta kosti ekki kaupa rekkjuvoðir og handklæði framvegis án þess að athuga fyrst hvernig framleiðslunni er háttað. Ég held að við höfum öll efni á að greiða aðeins meira fyrir vöruna og tryggja þannig lágmarkskröfur um aðbúnað og laun.
13.3.2007 | 20:49
Ég sakna gamla SÍS
Þegar ég var unglingur átti ég heima vestur á Þingeyri við Dýrafjörð. Þar var kaupfélagið allt í öllu. Frystihús, saltfiskverkun, bræðsla, skreiðarverkun, útgerð, matvörubúð, vélsmiðja og bensínstöð var m.a. það sem kaupfélagið rak. Á þessum árum var mikil velmegun, nóg að gera fyrir alla og þurfti að flytja inn herskara fólks frá útlöndum til að ná að vinna aflann sem barst að landi. Svo margir voru t.d. Ástralarnir að verbúðin var nefnd Ástralía.
Þingeyri var ekkert einsdæmi hvað íslensk sjávarpláss varðar. Kaupfélögin voru víðast hvar sterk og héldu uppi atvinnustiginu í flestum þorpum. Hvort sem vel eða illa gekk í útgerð og fiskvinnslu fóru þau ekki burtu með fiskinn til að vinna hann annars staðar, heldur voru ávalt til staðar.
Rothöggið fyrir flest kaupfélög á landinu var greitt þegar SÍS var lagt niður eða skipt upp í einingar sem síðan voru seldar eða hirtar. Þar með hvarf hluti samtakamáttarins sem kaupfélögin bjuggu að, s.s. Innkaupadeildin, Skipadeildin og Sölusamtökin ef mig minnir rétt. Einnig hjálpaði SÍS gamli þeim kaupfélögum sem lentu í tímabundnum erfiðleikum. Allt fór þetta forgörðum á endanum.
Nú þegar illa gengur fyrir vestan er ekki úr vegi að minnast kaupfélagana, SÍS og samtakamáttarins með hlýhug. Ef þeirra hefði ekki notið við hefði sama ástand og nú er skapast fyrir löngu. En kannski er ekki of seint að stofna nýtt SÍS.
13.3.2007 | 15:44
Baugur
Hef fylgst með ,,Baugsmálinu´´ líkt og flestir aðrir. Það sem mér finnst vanta í fréttir fyrir utan hvort Gestur er betri lögmaður en Sigurður, hvort dómurunum finnist eitthvað sérlega skemmtilegt í málinu eða hvort þeir séu að missa þolinmæðina gangvart saksóknara er spurningin um hvort einhverju var stolið, vantalið, falið eða ekki gerð grein fyrir. M.ö.o. hvort lög hafi verið brotin eða ekki.
Vil frekar fá úr því skorið heldur en að snilli lögmanna verði þess valdandi að málið falli niður dautt vegna lögfræðilegra klækjabragða. Að vísu er mönnum vandi á höndum þar sem sum vitnin virðast ekki muna neitt stundinni lengur.
Einföld spurning: Var einhverju stolið eða ekki?
13.3.2007 | 15:11
Bloggvinir
Hef verið hér inni á blogginu í fimm daga. Játa það fúslega að þetta samfélag er hið merkilegasta. Félagi minn einn sem er hér inni tjáði mér að þetta gæti orðið ávanabindandi, - er ekki frá því að það sé rétt. Hann sagði mér einnig að maður yrði að koma sér upp bloggvinum, svo það sem á hugann sækti væri lesið. Ekki skal ég fullyrða að það sé nægjanlegt, a.m.k. tel ég að eitthvað vit verði að vera í því sem er skrifað til að svo sé.
Félagi minn sagði mér einnig að mismunandi væri hverju fólk sæktist eftir þegar bloggvinir væru valdir, öðrum væri hreinlega sama á meðan einhver vildi vera bloggvinur þeirra.
Ég ákvað að ég ætlaði að reyna að safna að mér bloggvinum með mismunandi skoðanir á hlutunum. Byrjaði á að gera út á einn hægri krata, lagði net fyrir gegnheilann framsóknarmann af gamla skólanum, umhverfisverndarsinni hefur ánetjast, nokkrir úr VG líka, einn frjálslyndur hefur bitið á agnið og nú er ég að reyna að finna femínistalóðningar. Held að ég hafi einnig náð að landa einum íhaldsmanni. Sem meðafla hef ég einnig náð óflokksbundnum.
Ég hefði gaman af að sjá þetta fólk samankomið í eigin persónu og rökræða. Er ansi hræddur um að þá færi allt í háaloft. Kannski eins gott að þessi miðill sé til þannig að fólk geti safnast saman án þess að vera í raun í neinni nálægð.
13.3.2007 | 13:01
Þjóðareign
Í fréttum RÚV áðan sagði Sigurður Kári Kristjánsson að hann skildi ekki orðið þjóðareign. Ég legg þann skilning í það orð að um sé að ræða ,,eign í eigu þjóðarinnar.´´ Getur varla verið skýrara. Það er augljóst að þetta skilningsleysi þingmannsins er ekki komið til af því að hann sé ókunnugur merkingu orðsins, heldur er hann að verja þrönga hagsmuni þeirra sem hafa slegið eign sinni á fiskinn í sjónum. Er hálf dapurt að jafn vel gefinn maður og umræddur Sigurður Kári geri sér upp vanþekkingu og skilningsleysi í stað þess að segja hreint út að hann sé að verja með kjafti og klóm hagsmuni fárra á kostnað þjóðarinnar.
Auðvitað þarf hann að huga að fjáröflun Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar, en hann verður þá að finna aðrar leiðir en að ná í þá fjármuni með því að gefa frá sér eignir sem ég og aðrir Íslendingar eigum. Þess utan á hann sér þá hugsjón heitasta að allt sem getur gefið af sér tekjur fyrir ríkissjóð (þjóðina) verði fært til einkafyrirtækja.
Það að staðfest sé í stjórnarskrá að þjóðin eigi auðlindirnar tryggir m.a. að ekki er hægt að framselja þær, s.s. fiskveiðiheimildir, til annarra en Íslendinga. Það tryggir einnig að þjóðin geti ráðstafað auðlindunum á sem skynsamlegastann hátt. Um það snýst þetta mál. Auðvitað stendur Sjálfstæðisflokkurinn á móti því, þar sem það gæti verið snúnara en ella að selja til einkaaðila fiskveiðiheimildir ásamt réttinum til nýtingar vatnsafls og jarðvarma.
Á hinn bóginn er sú grein sem verið er að hugsa um að bæta inn í stjórnarskránna núna ekki til þess gerð að staðfesta eign þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum hennar. Þvert á móti er verið að staðfesta eignarétt þeirra sem nýta hana núna þó svo að svo sé látið heita að um þjóðareign sé að ræða.
Það er í sjálfu sér alveg út í hött.