Nýir tímar í Hafnarfirði

Í gær kom í ljós eins og flestir vita að Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík. Höfnuðu ekki álverinu sem er fyrir, heldur einvörðungu stækkun þess eða nýju álveri eftir því hvernig á það er litið. Það er klár staðreynd að ekki verður um stækkun að ræða á þessu kjörtímabili í Hafnarfirði. Það er einnig ljóst að núverandi álver er rekið í mikilli sátt við stærstan hluta bæjarbúa, og vert að minnast þess að Hafnfirðingar voru ekki með afstöðu sinni í gær að kjósa það í burtu. Öðru nær ef litið er á málflutning stækkunarandstæðinga. Úrslitin sem urðu í gær eru heldur ekki til marks um sterka stöðu einstakra stjórnmálaflokka í Hafnarfirði, heldur er greinilega um að ræða mál sem Hafnfirðingar kusu um út frá því sem þeir telja að komi hag bæjarins til góða.

Í Silfri Egils fyrr í dag var því eins og Kristrún Heimisdóttir, Samfylkingunni, væri ekki alveg í takt við tímann. Að þakka Samfylkingunni úrslitin, að blanda saman nýrri stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum og niðurstöðunni og lýsa því yfir að Samfylkingin komi afskaplega sterkt út úr þessu lyktar af hálfgerðri tækifærismennsku. Eru nokkur rök fyrir því að stuðningsmenn annarra stjórnmálaflokka sem kusu gegn þessari stækkun hafi gert það með hag Samfylkingarinnar í huga. Held að það geti varla verið. Á sama hátt voru þeir sem kusu með stækkuninni ekki að styðja einn stjórnmálaflokk öðrum fremur. Hér voru bæjarbúar eins og áður sagði einvörðungu að kjósa út frá því hvernig þeir telja hagsmunum bæjarins best borgið.

Á hinn bóginn ef litið er á hvernig einstakir stjórnmálaflokkar komu að þessu máli, eða öllu heldur kjörnir fulltrúar þeirra, þá er ekki með nokkru móti hægt að segja að Samfylkingin komi sérstaklega sterkt út úr því. Enginn fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn vildi gefa upp afstöðu sína (þó svo að þeir gæfu í skin að þeir væru fylgjandi stækkun). Það lá hins vegar fyrir svo dæmi sé tekið hverrar skoðunar fulltrúi VG í bæjarstjórn var og er í málinu alveg frá byrjun. Það er afskaplega trúverðugt þegar fulltrúar stjórnmálaflokka koma fram áður en niðurstaða liggur fyrir og segja sína skoðun, á sama hátt og það er ótrúverðugt þegar fulltrúar koma eftir á og ætla að skreyta sig blómum. Mikið rétt. Samfylkingin lagði fram tillöguna um kosningarnar og virðist ætla að hlýta niðurstöðunni, en það er ekki þar með sagt að þeir beri einhvern sérstakan heiður af hvernig mál gengu fram. Nær væri að segja að Samfylkingin hefði beðið nokkuð afhroð.

Það er ekki glæsilegt veganesti sem oddviti Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi leggur upp með fyrir kosningarnar í vor. Hann, leiðtogi listans, var nokkuð hallur undir stækkunina á meðan nokkrir aðrir meðframbjóðendur hans voru á móti. Því má segja að flokkurinn hans sé klofinn í afstöðunni til stóryðjuuppbyggingar á svæðinu, eða a.m.k. sé uppi þó nokkur ágreiningur. Það er ekki beint trúverðugt gagnvart kjósendum, og því eru fullyrðingar um að Samfylkingin sé hinn eini og sanni sigurvegari nokkuð færðar í stílinn. Enda ómaklegt gagnvart íbúum bæjarins sem tóku þátt í kosningunum, því að um þverpólitískt mál er að ræða. Afstaða fólks endurspeglaðist frekar eftir búsetu og aldri, en pólitískum línum.

Þeir sem raunverulega sigruðu voru þeir sem ekki vilja gera Hafnarfjörð að stærsta álsveitarfélagi í Evrópu, þeir sem vilja aðra sýn en endalausa stóryðju sem eina valkostinn í atvinnusköpun. Sjónarmið umhverfisverndar urðu ofan á, og vonandi að stjórnvöld sjái nú að sér í stað þess að ráðstafa takmarkaðri orku til fyrirtækja á borð við álverið í Straumsvík. Samfylkingin hefur fram að þessu ekki skipað sér í þá sigursveit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband