11.10.2007 | 19:21
Ógæfumaður í farteskinu.
Það er hálf óhuggulegt að við í VG þurfum að eiga allt undir Birni Inga í hinum nýja meirihluta sem búið er að stofna til í Reykjavík. Að vísu á eftir að bera gjörninginn undir félagsmenn VG, en samkvæmt þeim blaðamannafundi sem hinir nýju oddvitar stóðu að ásamt nokkrum ógæfumönnum er áttu leið um Vonarstræti, (merkilegt samhengi) stöndum við víst frammi fyrir orðnum hlut. Reikna með að slíkt eigi við um félagsmenn annarra flokka er standa að meirihlutanum sem verið var að stofna til.
Það er eins og ég sagði í upphafi hálf óhuggulegt að þurfa að eiga allt undir Birni Inga. Það verður ekki horft fram hjá því að nokkrum tímum áður en Björn Ingi varð félagshyggjumaður, að hann handsalaði samkomulag við fráfarandi borgarstjóra um áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann er víst líka búinn að taka í hendur oddvita nýju meirihlutaflokkana um samstarf. Það að handsala samkomulag þýðir í raun að menn leggja við drengskap sinn að standa við orð sín. Í sannleika sagt gef ég ekki baun fyrir samkomulag við persónur sem ganga svo freklega á bak orða sinna sem raun ber vitni. Sporin hræða.
Það vekur einnig furðu að í fyrradag var það samhljóma álit VG, Samfylkingar, og Margrétar Sverrisdóttur að umræddur Björn Ingi hefði gerst uppvís að gróflegri misnotkun valds, falið staðreyndir er snertu REI, gengið gegn hagsmunum almennings í því máli, staðið að gerð svívirðilegra kaupréttarsamninga við sérstaka gæðinga, m.a. Framsóknarflokksins, og að Framsóknarflokkurinn í heild sinni væri óalandi og óferjandi. Svipaðar skoðanir á Birni Inga og Framsóknarflokknum voru líka uppi daginn áður, daginn þar áður, vikurnar, mánuðina og jafnvel árin á undan. Hvað hefur eiginlega breyst á einum sólarhring sem gerir viðkomandi að hreinum englum, í stað hálfgerðra skúrka?
Nú hefur verið sent út fundarboð til félagsmanna VG í Reykjavík þar sem hið nýja meirihlutasamstarf verður til umræðu. Þ.e. að samþykkja orðinn hlut. Minnir nú óneitanlega á REI- málið. Ég ætla rétt að vona að við berum þá gæfu að fella þá tillögu. Það verður a.m.k. að útskýra sinnaskiptin fyrir okkur félagsmönnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tilurð þessa nýja meirihluta lyktar óneitanlega vel og vandlega af pólitískri tækifærismennsku. Ef að ég hefði atkvæðisrétt á fundi VG um aðild flokksins að þessum meirihluta myndi ég greiða atkvæði gegn því.
Jóhannes Ragnarsson, 12.10.2007 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.