Að byggja sér draumahöll

Konan mín, ég og bankinn fundum út fyrir nokkru að húsnæði vort væri orðið of lítið, óhentugt vegna fjarlægðar frá vinnunni ásamt einhverjum öðrum ókostum. Þá var ákveðið að í stað þess að kaupa skyldi byggt. Og í næstu viku mun fjölskyldan sem sagt geta staðið á gólfi jarðhæðar draumahallarinnar. Þó svo að þetta hljómi einfalt er það nú ekki svo. Fyrst þarf að teikna húsið, og er það hreint með ólíkindum að fólk sem hefur búið saman í tíu ár skuli hafa svo ólíkar skoðanir á hlutunum. Atriði eins og lögun, stærð og staðsetning glugga geta tekið nokkrar vikur í umfjöllun byggingarnefndar heimilisins, ásamt kærufrestum og andsvörum og andsvörum við þeim. Þess utan þá virtist sem hver einasti gröfumaður, smiður, pípari, rafvirki og múrari landsins væri bundinn við smíði annarra draumahalla.

 Í bjartsýni minni átti nú að rumpa af ýmsum smáatriðum sem ég ætlaði að sjá um. Allur handmokstur á grús og sandi innan sökkuls sem utan, þjöppun, akstur stórvirkra vinnuvéla sem hjólbörur óneitanlega eru, járnabinding og allt snatt í kringum framkvæmdina hefur tekið lengri tíma og verið erfiðara en ég hélt. Síðustu tvær vikur hafa því verið mjög strembnar og kostað mikinn svita og oft verið bitið á jaxlinn og bölvað í hljóði (ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna aldrei er farið með guðsorð þegar fólk stendur í svona erfiði, heldur alltaf bölvað. Ég er búinn að finna skýringuna á því að ég tel).

Þrátt fyrir allt amstrið og erfiðið sem þessu fylgir, þá eru hlutir eins og að sjá minnismerki um sjálfan sig rísa, vinna úti í þeirri blíðu sem hefur ríkt að undanförnu og að sjá þegar maður stendur fyrir framan spegilinn að magavöðvarnir sem hurfu fyrir nokkrum árum eru farnir að sjást aftur þá er það vel þess virði að standa í þessari geðveiki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þetta þýðir að maður kemur að kíkja í holuna í vikunni ... áður en alveg verður fyllt upp í hana.

Berglind Steinsdóttir, 29.7.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband