23.10.2008 | 17:00
Lok, lok og læs
Heimasíða viðskiptaráðherra vors var lokuð áðan þegar ég ætlaði að grufla í hvað honum hefur fundist um bankana, frumkvæðið, dirfskuna, alla snillina og útrásina, hvort hann hafi e.t.v. mært þetta of mikið á sínum tíma og jafnvel að fá upplýsingar um stöðuna eins og hún er núna að hans mati.
Kemst ekki inn á síðuna annað hvort vegna tæknilegra orsaka, eða að það sé búið að loka henni. Er þetta ekki sama aðferð og sagt er að kínversk yfirvöld beiti þegar óþægindi koma við sögu á netinu.
23.10.2008 | 12:05
13 og hálfur
Ég þurfti að fara inn á vef Alþingis í gær til að fletta upp á netfangi. Ákvað í leiðinni að athuga hvaða menntun þeir þingmenn hafa sem nú stjórna landinu. Mér til mikillar furðu reyndust þeir vera þrettán og hálfur sem eru lögmenn. Samkvæmt hlutfallsreikningi eru því um 21,5% þingmanna lögfræðimenntaðir. Ef þetta væri heimfært upp á þjóðina út frá því að þarna sé um þverskurð hennar að ræða eru því um 68.500 Íslendingar lögmenn.
Þetta með þverskurðinn getur ekki staðist, frekar en að um 68.500 Íslendinga séu jólasveinar í hlutastarfi. En þó á maður aldrei að segja aldrei.
21.10.2008 | 10:51
Reiði, og vonleysi
Þegar maður les frásagnir þess alþýðufólks sem upplifði kreppuna miklu á síðustu öld, má skynja að ríkt hefur óskaplegt vonleysi meðal þess. Fátækt, hungur, kuldi og léleg klæði var það eina sem foreldrar gátu oft á tíðum boðið börnum sínum upp á. Lífsbaráttan það hörð að margir þeirra sem undir öðrum kringumstæðum hefðu átt glæsta framtíð gáfust hreinlega upp. Urðu s.s. vonleysinu og biturðinni að bráð.
Einnig skynjar maður þá miklu reiði sem heiðarlegt fólk var gripið yfir hinni miklu misskiptingu auðs, gæða og tækifæra sem þessir tímar skópu. Ef fólk lét í sér heyra um hið hróplega óréttlæti var það jafnvel sett á svarta lista, fékk síður vinnu og þar með minni möguleika til að brauðfæra sitt fólk.
Í einfeldni minni hélt ég að þetta væri hlutur sem maður ætti eingöngu eftir að upplifa í gegnum frásagnir eldra fólks, skynja þessa tíma úr fjarlægð og hugsa sem svo að valdhafarnir hlytu að hafa lært það mikið af reynslunni að forsendur fyrir svona ástandi myndu ekki skapast aftur.
Reyndar er ástandið ekki orðið svona enn. Ljósið í myrkrinu eru ýmis félagsleg réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur náð að koma í gegn þó ekki hafi sú réttindabarátta gengið þrautalaust fyrir sig. Á hinn bóginn er almenningur skuldsetnari nú en þá og fyrirsjáanlegt að ekki er eingöngu búið að ræna þær kynslóðir sem nú eiga að heita í fullu fjöri heldur einnig afkomendur okkar.
Á þeim krepputímum sem á undan hafa gengið hefur heldur ekki verið slíkur fjöldi erlends vinnuafls eins og nú er. Sumt þessa fólks er þegar farið til síns heima á ný, en aðrir vilja vera eftir. Við vitum vel að þegar að kreppir þá vill reyndin verða sú að stutt er í fordóma í garð útlendinga sem eru þegar vel gegnur ekki of góðir til að vinna við að hreinsa upp eftir okkur skítinn og borga sína skatta og skyldur. Nú verða láglaunastörfin sem útlendingarnir vinna meira að segja allt í einu eftirsóknarverð. Við Íslendingar erum ekkert frábrugðnir öðrum þjóðum að því leitinu til, að ,,Ísland skuli vera fyrir Íslendinga´´ þegar illa gengur. Sú hætta hlýtur því að vera raunveruleg að við dettum í það far að hafa fordóma gagnvart þeim útlendingum sem hér búa og vilja starfa. Því miður.
Þegar er maður farinn að heyra í auknum mæli um þetta ,,sígaunapakk´´, ,,grjónaætur´´ og fleira fallegt í þessum dúr.
Að almenningur gerti fundið blóraböggla fyrir vanhæfni valdhafana er í sjálfu sér eftirsóknarvert fyrir þá. Hvort sem það er sígaunapakkið, grjónaæturnar, Davíð Oddsson, Gordon Brown eða ytri skilyrði, þá beinist ekki athyglin að rót vandans á meðan. Rót vandans er ekki það sem á undan er talið, heldur frekar að þeir stjórnmálamenn sem hafa verið við völd hafa ekki staðið sig.
Hvort sem stjórnmálamennirnir hafa verið við völd í sautján ár eða ,,eingöngu´´ í eitt og hálft og allt þar á milli þá bera þeir ábyrgðina. Eða voru þeir ekki annars ráðnir til að stjórna landinu.
Kannski er eitthvað til í því sem virtir og óháðir erlendir fræðimenn segja um íslensk stjórnvöld um að þetta séu upp til hópa kjánar þegar kemur að stjórn efnahagsmála.
Í dag skynjar maður reiði og vonleysi meðal fólks.
17.10.2008 | 20:18
Sökudólgarnir fundnir.
Vaknaði (sofnaði s.s. yfir Kastljósinu) rétt í þessu við hina dísætu og seyðandi rödd Þórhildar Þorleifsdóttur þar sem hún var búin að finna sökudólga fyrir ástandinu í heiminum og þar með hér. Karlmenn og ekkert röfl með það.
Er vægast sagt orðinn hálf þreyttur á því að allar Þórhildar og Ólöfur þessa heims kenni mér um það sem aflaga fer í hinum hverfula heimi. Þó svo ég sé af sama kyni og óreiðumennirnir hans Davíðs, þá ber ég enga ábyrgð á þeirra gjörðum.
Langar að minna á að þeir eru jú flestir fæddir af konum.
6.10.2008 | 11:45
Veikar varnir
Las áðan pistil eftir Ragnar Arnalds þar sem hann heldur uppi vörnum fyrir íslensku krónuna.og telur að við þurfum að fylkja liði um hana í stað þess að hrópa hana niður. Einnig bendir Ragnar á og færir fyrir því skotheld rök að þó svo ákvörðun yrði tekin um upptöku Evru myndi það ekki gerast næstu árin.
Ég las líka út úr pistlinum að það væri e.k. náttúrulögmál að á Íslandi yrðu vextir að vera háir svo að mögulegt væri að halda verðbólgu niðri og þeim markmiðum sem sett hafa verið um hver hún eigi að vera. Ef vaxtastig á Íslandi er lágt er það ávísun á háa verðbólgu þar sem athafnasemi landans er slík að allt fer úr böndunum vegna þenslu og framkvæmdagleði.
Nú er það svo að þrátt fyrir vaxtastig sem sumir kalla okurvexti, t.d. um 25% vextir á yfirdrætti og greiðslukortum, algeng skuldabréfalán bera 18-20% vexti, þakkarvert ef húsnæðislán bankana bera lægri vexti en 6,5% og ofan á megnið af þessum lánum leggst svo verðtrygging, er verðbólgan um þessar mundir 14-15%. Stýrivextir Seðlabankans eru 15,5% ef rétt er munað.
Er nema von að ég efist aðeins um forsendur félaga Ragnars þegar kemur að gjaldmiðilsmálum. Á sama hátt og ég efast um að þó rætt sé um það af alvöru að breyta um gjaldmiðil á næstu árum muni það hafa neikvæð áhrif á álit útlendinga á krónunni og getu íslensks efnahagslífs í þeim þrengingum sem nú ganga yfir. Miðað við hvað krónan okkar er eftirsótt um þessar mundir hef ég fulla trú á að útlendingar séu búnir að mynda sér þá skoðun að um ónýtan gjaldmiðil sé að ræða. Þurfa ekki neina hjálp til þess.
Ég hlýt líka að spyrja mig þeirrar spurningar hvort réttlætanlegt sé gagnvart almenningi að þegar gengi krónunnar fellur um 70% á níu mánuðum með tilheyrandi hækkun á verðlagi, gengisfall sem heldur verðbólgunni við og þar með vaxtastiginu og verðbótunum, að fara ekki að huga alvarlega að annarri mynt. Að sjálfsögðu í bland við aðgerðir sem koma okkur út úr þessu ástandi sem nú er með sem minnstum skakkaföllum.
Sjálfur tel ég það ekki réttlætanlegt að halda sig við mynt sem er ónýt og eykur óumdeilanlega á þá krísu sem við erum í núna. Það þarf jú að reka heimilin. Ef matur, drykkur, klæðnaður og húsaskjól hækkar í verði umfram það sem eðlilegt getur talist vegna þeirrar myntar sem við höfum er ekki hægt að réttlæta notkun hennar.
Ég veit að hugsjónir Ragnars eru ekki þær að fólk sé bundið ævilangt á klafa skulda og verðtryggingar ásamt ofurvöxtum og háu verðlagi á nauðþurftum.
Það er því alveg rétt hjá Ragnari að nú þarf að sýna samstöðu, þó um annað sé en áherslur hans varðandi íslensku krónuna.
6.10.2008 | 10:36
Hvað er með þessa sparifjáreigendur
Fór að sofa þess fullviss í gær að hlutirnir væru ekki svo slæmir. Geir, forsætisráðherra vor og ljós lífs míns, færði mig inn í draumalandið með þeim huggunarorðum að ekki þyrfti neinn aðgerðapakka og að sparifjáreigendur þyrftu allra síst að hafa áhyggjur.
Í morgun þegar ég vaknaði var ástandið orðið mjög alvarlegt að sögn Geirs. Vona nú samt innilega að sparifjáreigendur fái sitt, enda væri nú fokið í flest skjól ef svo væri ekki.
Hvorki ég eða þeir sem ég hef talað við þekkja ekki svo svo vitað er neinn sparifjáreiganda. Af hvaða þjóðarbroti er þessi sparifjáreigandi eiginlega?
Spyr sá sem ekki veit.
6.10.2008 | 00:40
Einmana og hrjáður
Þegar ég var á bensínstöðinni áðan að lepja kaffi fyrir svefninn greip ég eintak af Séð og Heyrt og gluggaði í því. Þar þótti mér bera hæst að Hannes Smárason sem eitt sinn var eitt aðal viðskiptajöfraundrið á Íslandi, væri að vinna í því að jafna sig og safna kröftum eftir að hafa tapað fleiri milljörðum og eiga jafnframt þátt í einu stærsta rekstrartapi Íslandssögunnar.
Hann hýrist í lítilli sætri 120 m2 íbúð með henni Unni sinni og barnfóstrunni í einu dýrasta og eftirsóttasta hverfi Lundúna á meðan hann safnar kröftum fyrir næsta ævintýri. Greyið er reyndar hálf einmana og vinalaus eftir að auðurinn hvarf. Á enn hana Gunnþóru barnfóstru þó að.
Er hægt að bjóða venjulegu fólki upp á svona fréttir án þess að verða alveg vitlaust úr illsku?
5.10.2008 | 17:28
Þjóðargjöf
Nú virðist vera komið á hreint að það eigi að flytja erlendar eignir lífeyrissjóðana inn í bankana. A.m.k. ef marka má þann fögnuð sem Þorsteinn Már Baldvinsson er þrunginn á visi.is fyrir stundu.
Alltaf fara menn verstu leiðina fyrir almenning, og þá eigendur sjóðana, ef þessi leið verður fyrir valinu. Benti á það á blogginu í fyrradag hvernig frekar skyldi staðið að þeim flutningi ef af yrði.
Með því að færa Glitni og/eða öðrum fallítt bankastofnunum sjóðina getum við allt eins sagt bless við lífeyrissparnaðinn. Dósent í hagfræði sagði jú að bankarnir væru tæknilega gjaldþrota.
Þar fór það nú.
4.10.2008 | 14:44
Hjálp!!
Ég held að við í VG verðum að fara að viðurkenna að krónan okkar sé gersamlega búin að vera sem gjaldmiðill. Hvort sem um er að kenna ytri aðstæðum, vondri peningamálastjórn hér heima, að bankakerfið hafi verið ofvaxið íslenskum aðstæðum eða blöndu þessa alls þá er það orðið deginum ljósara að þessi gjaldmiðill er að valda okkur almenningi miklum búsifjum á þessari stundu og hefur reyndar gert lengi þó svo að ekki hafi verið með þeim endemum eins og nú.
Því þýðir í raun ekki lengur að berja höfðinu við steininn, við verðum hreinlega að skipta út krónunni fyrir annan og betri gjaldmiðil hvort sem það er Evra með tilheyrandi inngöngu í ES eða að tengja krónuna einhverskonar myntkörfu þar sem gengi nokkurra gjaldmiðla væri notaðir til að ákvarða gengi íslensku krónunnar. Reyndar hef ég ekki séð þessa hugmynd viðraða og væri í raun fróðlegt út af fyrir sig að heyra rök á móti því að sú leið verði farin. Í fljótu bragði virðist ekkert mæla á móti því. Ekki getur ES bannað okkur það, - eða hvað?
Allt tal um að eins og núverandi ástand er hér heima og að við verðum að halda trúverðugleika okkar gagnvart öðrum ríkjum og fjármálakerfum með því að halda okkur við þann gjaldmiðil sem við höfum sama hvað á gengur átti kannski rétt á sér í síðustu viku en ekki lengur. Trúverðugleiki efnahagslífs okkar og gjaldmiðilsins þ.a.l. er eins og staðan er núna akkúrat enginn. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að enginn vill eiga krónuna okkar eða taka þátt í þeirri hringavitleysu sem hér er.
Krónan hefur fallið um ca. 70-80% frá áramótum. Verð innfluttra vara hefur því hækkað um tugi prósenta umfram verðlagshækkanir í okkar viðskiptalöndum á sama hátt og innlendar vörur hækka í takt við hækkun erlendra aðfanga sem notuð eru við framleiðslu þeirra. Verðbólga og þ.a.l. verðtrygging lánanna okkar, vaxtagjöld og afborganir eru í hæstu hæðum.
Ein af skyldum VG sem ábyrgs stjórnmálaafls er því að laga sig að breyttum aðstæðum. Þá er ekki verið að miða við einföld dægurmál, heldur aðstæður sem eru á góðri leið með að leggja líf okkar almennings og heilsu í mörgum tilfellum í rúst. Því verðum við í stuttu máli að leggja til hliðar hugmyndir um að krónan geti dugað okkur sem gjaldmiðill þegar reynslan sýnir annað. Það að hafa krónuna sem okkar gjaldmiðil í breyttum heimi alþjóðavæðingar og viðskipta var tilraun sem því miður gekk ekki upp. Hagur almennings verður að vera í fyrirrúmi, en ekki tilraunastarfsemi sem hefur gengið sér til húðar.
Við fólkið í landinu ráðum einfaldlega ekki við þetta lengur!
3.10.2008 | 03:02
Að hjálpa bönkunum
Atburðir þeir sem hafa átt sér stað að undanförnu í efnahagslífi okkar hafa gert það að verkum að venjulegt fólk setur hljóðan. Krónan okkar hefur fallið um 70% frá áramótum og reyndar sér ekki sér fyrir endann á því falli. Verðbólga í hæstu hæðum, vextir af lánunum okkar gríðarlega háir, íslensku lánin hækka vegna verðtryggingarinnar og þau erlendu vegna gengisfallsins, lánastofnanir eiga ekki fjármuni til að lána fyrirtækjum eða einstaklingum og virðast reyndar vera upp á náð og miskun ríkisvaldsins komnar. Erlend fjármálafyrirtæki eru farin að benda viðskiptavinum sínum á að forðast krónuna eins og pestina og svona mætti lengi telja.
Þetta hefur svo í för með sér að fyrirtæki og einstaklingar geta ekki staðið undir afborgunum og skuldbindingum sínum, vöruverð hækkar upp úr öllu valdi, fyrirsjáanlegt að atvinnuleysi mun aukast til muna, gjaldþrotahrinu spáð og nú síðast var eitt olíufélagana að segja það hreint út að ekki sé hægt að nálgast gjaldeyri til að kaupa inn olíu, og sjálfsagt mun verða jafn erfitt fyrir önnur fyrirtæki að nálgast gjaldeyri til kaupa á öðrum nauðþurftum.
Ekki er ástandið glæsilegt svo talað sé af hógværð og ábyrgð sem allir eru hvattir til að temja sér í þeim þrengingum er steðja að þjóðinni á þessum erfiðu tímum, svo maður slái um sig með þekktum frösum.
Hvort heldur sem marktækir hagfræðingar eða stjórnmálamenn eru fengnir til að tjá sig um ástandið reyna menn eftir fremsta megni að stilla orðum sínum í hóf og segja að nú sé ekki rétta stundin til að finna sökudólgana, - það megi bíða betri tíma, heldur sé aðal málið núna að finna lausn á vandanum sem að okkur steðjar. Í sjálfu sér er það virðingarvert og einnig til marks um hvað ástandið er alvarlegt. Ég man ekki til þess fyrr að ekki hafi verið reynt að finna einhvern til að hengja fyrir það sem aflaga hefur farið.
Það sem veldur manni hins vegar óhug er að hvorki stjórnmálamenn né hagfræðingar virðast hafa neinar lausnir á vandanum aðrar en þær að reyna að tala kjark hver í annan og í fólkið í landinu og boða að reyna verði að ná sátt um þær lausnir sem gripið verði til þegar og ef þær finnast. Sannast sagna þykir mér það frekar þunnur grautur og vekur upp þá tilfinningu, byggða á fyrri reynslu, að lausnirnar muni verða okkur almenningi mjög svo dýrkeyptar.
Ef við lítum aðeins á þann lið er menn nefna gjaldeyrisþurrð á fínu máli (heitir á mannamáli að menn eiga hvorki evrur eða dali og njóta svo lítils lánstrausts að ekki er nokkur heilvita maður sem vill lána okkur slíkt fé), þá eru það þó lífeyrissjóðirnir okkar sem eiga umtalsverða sjóði í erlendri mynt. Að sögn um 450-500 milljarða á meðan dalurinn var ekki nema í 95 kr.
Að sjálfsögðu hafa bankar og fjármálastofnanir lengi haft augastað á þessum fjármunum og ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að um langt skeið hafa þessar sömu stofnanir og bankar hvatt lífeyrissjóðina til að leggja þetta fé í áhætturekstur. Í ljósi ástandsins sem nú ríkir hafa lífeyrissjóðirnir sem betur fer verið tregir til þess, enda flestir fjárfest með hagsmuni eigenda sinna að leiðarljósi, þ.e. almennings.
Nú er hins vegar lag fyrir okkur eigendurna að nota þessa sjóði okkar til efnahagslegs ávinnings. Ég segi fyrir mitt leiti að ég væri meira en til viðræðu um að afhenda bönkunum þennan gjaldeyrisforða, að ákveðnum skilyrðum þó uppfylltum. Það er jú eðli viðskipta að reyna að hagnast sem mest á þeim og við eigendur þessara peninga erum í aðstöðu til þess á þessum tímapunkti.
Fyrir mitt leiti til viðræðu um að þessir peningar væru notaðir til að greiða niður íslensku íbúðalánin sem bankarnir eiga hjá okkur almenningi, sem eru eins og áður sagði á háum vöxtum og verðtryggð. Bankarnir yrðu hins vegar einnig að sætta sig við að lífeyrissjóðirnir sem fara með umboð okkar almennings myndu kaupa þessi lán með afföllum á sama hátt og bankastofnanir myndu gera ef þær væru ,,réttu megin´´ við borðið. Lífeyrissjóðirnir myndu svo skuldbreyta þessum lánum yfir á lántakendurna þannig að þau væru í erlendri mynt og á hóflegum vöxtum án verðtryggingar. Miðað við gengisvísitöluna í dag kæmi þetta ekki svo afleitlega út fyrir okkur eigendurna og væntanlega skuldara þegar til framtíðar er litið.
Með þessu ynnist að bankar og fjármálastofnanir fengju töluverðann gjaldeyri sem þeim er nauðsynlegur, almenningur losnaði úr viðjum verðtryggingarinnar og með auknu framboði gjaldeyris myndi krónan væntanlega styrkjast svo afborganir lánanna yrðu auðveldari fyrir vikið. Lífeyrissjóðirnir myndu einnig vera með trygg veð á móti lánum sínum þar sem eignasafnið væri traust eins og bankarnir orða það um sín eignasöfn.
Til að auka enn á sátt almennigs og stjórnvalda væri svo upplagt ef stimil- og þinglýsingargjöld af skuldbreytingum þessum yrðu felld niður af hálfu stjórnvalda.