20.3.2007 | 20:05
ADSL Símans
Nú er mér gjörsamlega ofboðið. Fyrir nokkrum árum þá var hringt í mig frá Símanum og mér boðið ADSL áskrift fyrir tölvuna, sjónvarpið og símann. Það sem fékk mig til að taka tilboðinu fyrir utan meiri hraða, betri þjónustu og ég veit ekki hvað, var að fá að fylgjast með enska boltanum í beinni undir styrkri stjórn sparkspekinga. Mánuði seinna var því ævintýri lokið, en fékk í sárabætur aðgengi að því helsta sem er að gerast í lífi stærstu kvikmynda- og poppstjarna samtímans, ásamt sjónvarpsrás helgaðri boðun hins heilaga orðs. ekki alveg það sem ég ætlaði mér, en sjálfsagt mun meira gefandi. Nú er sú kristilega rás ekki einu sinni í boði lengur.
Þegar þetta var sett upp kom afskaplega elskulegt fólk til að tengja græjurnar. Ráter og spennubreytar, snúrur og allra handa kassar með blikkandi ljósum þekja nú hjá mér stofugólfið. Ég er með fjarstýringar úti um allt, ein til að kveikja á sjónvarpinu, önnur til að hækka í því og komast inn á hasarmyndaleiguna og fullorðinsrásina.
Verst er að frá upphafi hefur þetta bévítans drasl ekki virkað sem skyldi. Þegar heimilissímanum er svarað, dettur tölvan út og sjónvarpið fellur frá tímabundið, og ef hrært er í tökkum fjarstýringana á meðan kemur dótið ekki inn aftur fyrr en eftir dúk og disk. Á dögunum hringdi ég í þjónustuverið og það ábyggilega í hundraðasta sinn. Þar kom í ljós eftir tveggja eða þriggja ára áskrift að einhver sía var ónýt. Ég keypti aðra og skipti um. Ekkert betra þrátt fyrir það.
Í kvöld gekk svo alveg fram af mér þegar sjónvarpið virkaði bara alls ekki. Þegar ég hringdi og vildi fá leiðbeiningar kom í ljós að búið var að taka sjónvarpið úr þjónustupakkanum.
Skýringin: Jú, vegna tæknilegra mistaka.
ÞAÐ ER EKKERT ANNAÐ.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er búin að vera með Hive (heimasíma + adsl) í tvo mánuði og það hefur ekki klikkað (nema eitt kvöldið lá netið niðri í tvo tíma) svo að ég hafi orðið vör við. Hins vegar ætla ég einmitt að kanna á morgun hvort reikningurinn geti verið réttur, hann er aðeins hærri en ég átti von og ekki sundurliðaður. Af hverju eru ekki reikningar sundurliðaðir þótt þeir séu í heimabanka?
Berglind Steinsdóttir, 20.3.2007 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.