19.3.2007 | 15:25
Aðgengi að Bakkusi
Fór í ríkið s.l. laugardag. Eftir að hafa gengið framhjá rekkunum með rauðvíninu, hvítvíninu og brenndu drykkjunum endaði ég í bjórnum. Keypti mér eina kippu af íslenskri framleiðslu, og rauðvínsflösku með steikinni fyrir kvöldið. Ég hefði örugglega komist í ríkið alla virku dagana þar á undan, ef mig hefði langað til að svala þorstanum. Kom einnig við í matvörubúð og keypti inn til heimilisins það sem þurfti, s.s. morgunkorn, brauð og mjólk.
Í ríkinu var enginn undir tvítugu enda ekki heimilt að selja þeim sem eru undir þeim aldri áfengi. Þeir sem afgreiddu mig og ráðlögðu hvað kaupa skyldi var mikið fagfólk á besta aldri.
Ég verð að viðurkenna að mér fannst ekki brotið á frelsi mínu þó ég yrði að ganga um 10 metra aukalega til að ná mér í áfengi. Átta mig ekki alveg á þessari umræðu um höft og skerðingu á persónufrelsinu þó að vín og matur sé ekki afgreitt í sömu búð.
Þegar mér finnst að mér þrengt hvað þetta varðar ætla ég rakleitt á Vog þar sem einhverjar tugþúsundir hafa leitað sér hjálpar vegna áfengisfíknar þó svo að aðgengi að víni sé svona slæmt.
Þegar ég var í barnaskóla kom eitt sinn fræðingur sem hafði fundið á eigin skinni hvernig er að vera háður áfengi. Hans ráð var að ef líf okkar unglingana færi að snúast í ræðu og riti um áfengi, fyllerí og hvernig best væri að nálgast vökvann væru það greinleg merki þess að þá þyrftum við að leita okkur hjálpar.
Þetta á kannski við enn í dag?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nei nei nei, þarna er ég ósammála þér. Það að fólk vilji geta keypt rauðvín á sama stað og steikina segir ekki neitt um alkóhólisma. Þetta snýst um þjónustu.
Hitt er síðan annað mál að ef áfengi er innan um lambalæri, kornfleks og gráðaost - sem unglingar afgreiða kannski - getur orðið meiri hvati fyrir fólk til að kaupa meira og drekka meira. Eða kannski bara fyrsta árið og þegar fólk venst því að hafa þetta greiða aðgengi hættir það að líta á þetta sem tækifæri sem ekki megi láta ónotað.
Ég man svo þegar ég vann í sjoppu og neitaði að afgreiða unglinga og börn með tóbak, það var dálítið töff að standa í því, sjálf rétt komin með aldur. Það gæti orðið svoleiðis með ungviðið á kössunum í svona tilvikum.
Eitt að lokum - og það er helsta röksemdin í mínum augum gegn tilfærslu áfengis í matvörubúðir - ef selja má áfengi, 22% og léttara, hvar sem er verða bara 5% eftir af sölunni í sérverslunum og þá leggjast þær hægt og sígandi af og enginn getur keypt neitt nema ... ruddann, hehe.
Berglind Steinsdóttir, 19.3.2007 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.