Rafknúið Ísland

Árið 2006 voru samkv. Hagstofu Íslands flutt inn u.þ.b. 165.000 tonn af bensíni til að knýja bifreiðar. CIF verðmæti (komið að hafnarbakka á Íslandi)  þessa innflutnings voru 7,5 milljarðar. Þá er ótalið eldsneyti vegna díselbíla og verðmæti þess innflutnings.

Þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði viðtal áðan á gömlu Gufunni þar sem m.a. kom fram að nú til dags er ekkert því til fyrirstöðu að aka um á rafmagnsbílum. Tæknin er til staðar, langdrægni og hraði slíkra bifreiða er nægjanlegur hverjum meðalmanni og ekki þarf að velkjast í vafa um að rekstur slíkra bifreiða er mun hagkvæmari en hinna hefðbundnu bifreiða sem við flest ökum um á í dag. Að vísu þarf að byggja upp kerfi fyrir slíkar bifreiðar, hleðslustöðvar o.s.frv.

Nú þegar við Íslendingar eigum nægjanlega hreina orku til að fóðra slíkar bifreiðar á, er forvitnilegt að hugsa til þess að stjórnvöld hafa ekki lagt neina áherslu á að byggja upp slíkt kerfi og hvetja þannig almenning til að skipta sprengihreyflinum út fyrir rafmagnsmótorinn.

Það er einnig forvitnilegt að hugsa til þess að þegar umræðan er öll á þá lund að þjóðir heims þurfa að taka höndum saman til að draga úr útblæstri hinna s.k. gróðurhúsalofttegunda, er ekki nokkurt lífsmark að sjá hjá stjórnvöldum til að innleiða almenna notkun á rafmagnsbílum.

Það er líka forvitnilegt til þess að hugsa að stjórnvöld vilji frekar nota þá orku sem við höfum yfir að ráða til að knýja álver og aðra stóriðju, en að ráðstafa orkunni til verkefna sem þessara. Það er bæði eftir miklu að slægjast hvað varðar skyldur okkar í umhverfismálum, og fjárhagslegur ávinningur er einnig mikill. Það að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti hefur í för með sér hagstæðari vöruskiptajöfnuð við útlönd og eykur einnig hagvöxt ef innlendir orkugjafar eru notaðir þess í stað.

Miðað við þær hugmyndir sem eru í gangi um uppbyggingu álvera og þá ráðstöfun orku sem slíkt hefur í för með sér, verður varla mikið eftir til verkefrna sem þessa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband