Fasískar aðferðir íslenskra stjórnvalda

Í Kastljósinu í gær komu fram hlutir frá Guðnýju Halldórsdóttur sem ekki þættu beint kræsilegir í venjulegu lýðræðisríki. Að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skyldi senda erindi þess efnis til ríkisstjórnar annars ríkis að einn af hennar eigin þegnum væri hættulegur maður út frá þjóðaröryggi er hreint með ólíkindum. Sérstaklega í ljósi þess að þarna var um að ræða mann sem hafði sér það eitt til saka unnið að rita bækur og hafa skoðanir sem ekki voru valdhöfunum þóknanlegar. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að Halldór Kiljan, sem var fórnarlamb þessara ofsókna af hendi íslenskra valdhafa, mun ekki hafa staðið í skipulagningu hryðjuverka, njósnað fyrir erlend ríki eða aðhafst nokkuð það sem hægt væri að flokka sem starfsemi er ógnaði íslenska lýðveldinu. NEMA NÁTTÚRULEGA AÐ RITA BÆKUR.

Það er einkar kaldhæðnislegt að þau öfl sem létu þessi boð út ganga, voru að sögn að standa vörð um vestræn gildi (hvað sem það nú merkir), fordæmdu ritskoðun í austurvegi og fangelsun þeirra sem höfðu aðrar skoðanir en stjórnvöld í Ráðstjórnarríkjunum. Ekki hefur nú samkvæmninni verið fyrir að fara í orðum og gerðum.

Ekki svo mörgum árum fyrir en þetta gerðist, logaði Evrópa í átökum sem að hluta til voru vegna ofsókna af þessum toga. Þýskaland nasismans og Ítalía fasismans voru á öðrum póli þeirra átaka. Þjóðríki sem byggðu sitt skipulag á ofsóknum, m.a. gegn rithöfundum sem ekki voru valdhöfunum þóknanlegir og ótta þegnana við að hafa sjálfstæðar skoðanir og láta þær í ljós. Þó þessi birtingarmynd sem kristallast í tilfelli Halldórs Kiljans hafi verið öllu vægari, þá er hér í raun um sömu hugmyndafræðina að ræða.

Það er engin afsökun að tíðarandinn hafi þá verið með þessum hætti, og erfitt að setja sig í spor þeirra sem voru uppi á þeim tíma er þetta gerðist. Fasískur hugsunarháttur er aldrei afsakanlegur, hvort sem hann átti sér stað fyrir ófriðinn mikla í Evrópu eða áratugnum seinna.

Þeim tugum milljóna sem létust af völdum seinni heimstyrjaldarinnar og þeim tugum milljóna sem voru örkumluð líkamlega og andlega eftir þau átök er ekki mikil virðing sýnd með slíkum ummælum. Þessu fólki ásamt sviðinni jörð, borgum og bæjum sem voru lögð í rúst var ekki fórnað til að stjórnmálamenn uppi á Íslandi kæmu fram með þeim hætti sem hér um ræðir.

Það þarf greinilega að gera upp fortíðina víðar en hjá íslenskum vinstrimönnum. A.m.k. fer ekki miklum sögum af landráðum af þeirra hálfu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Þetta tímabil er eitthvað mjög viðkvæmt fyrir vinstrimönnum, ekki síst eftir því
sem þeir eru róttækari, af skiljanlegum ástæðum.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 19.3.2007 kl. 10:40

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Guðný hefur staðreyndirnar svart á hvítu. Skjöl um þessi mál hafa fundist í skjalasöfnum í BNA. Einhver íslenskur sagnfræðingur gróf þau upp og fjallaði um þetta mál.  Skrýtið hvernig hægrimenn reyna að snúa faðirvorinu uppá andskotann  þegar fjallað er um hegðan þeirra og mannréttindabrot.  Kannski þeir sakni McCarthy's? Skepnuskapurinn sem Halldóri var sýndur er úr hans kokkabókum og það mætti segja mér að í hjarta sínu gleðjist þeir yfir því, að lögreglustjórinn í Rvk. (og ekki má lýsa með réttum orðum) lét eyða sönnunargögnum um persónunjósnir yfirvalda áður en  hann fór á eftirlaun. Ekki hefur hann verið stoltur af þeim þætti starfseminnar. Þar voru brenndar í olíufati ómetanlegar sagnfræðilegar heimildir! Heimildir um hvernig  stjórnvöld fótum tróðu mannréttindi þjóðarinnar. Er nema vona að þeir tali digurbarkalega, sbr. Guðm Jónas!

Auðun Gíslason, 19.3.2007 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband