18.3.2007 | 17:08
Ofurþreytt framsóknaríhald
Horfði á Silfrið hjá Agli fyrr í dag. Kom s.s. fátt á óvart í umræðum þeirra Össurar, Einars, Sifjar og Steingríms. Og þó. Í stað þess að reyna að státa sig af einhverjum afrekum Framsóknarflokksins, fór allur tími Sifjar (og gott betur) í að reyna að þjarma að Steingrími J. Vonlaust frá upphafi eins og gefur að skilja. Reyndar spurði konan mín mig að því hvort við hefðum ekki verið að horfa á sama þáttinn. Gæti verið meðfætt óþol gegn nýframsóknarmönnum sem litar upplifun mína af þættinum.
Á hinn bóginn fór það ekki á milli mála að óskaríkisstjórn þeirra Einars og Sifjar er sú sama og er núna við völd. Eins og fram kom hjá Sif þá er það eina sem vantar upp á að svo geti orðið meira fylgi til Framsóknarflokksins. Guð almáttugur og allar góðar vættir forði okkur frá því. Einnig kom fram hjá þeim Einari og Sif þessi vanalega tugga um að betra sé að tveir flokkar séu við stjórnvölinn en þrír, að ef Vg komist í stjórn þá fari allt lóðbeint til helvítis á mettíma og litið um leið fram hjá þeim staðreyndum að framsókn og íhaldið eru nú að verða búin að hálfdrepa helming þjóðarinnar með okurvöxtum, viðskiptahalla og verðbólgu. Held að það sé kominn tími til breytinga hvort sem það verður tveggja eða þriggja flokka stjórn að afloknum kosningum.
Það leit hreinlega út fyrir að það væri komin þreyta, leiði og vonleysi í þau Einar og Sif. Er þá ekki kominn tími til að leyfa blessuðu fólkinu að hvíla sig vel og lengi?
Það var alveg greinilegt á þeim Steingrími J og Össuri að þá er farið að hlakka til að taka á í kosningabaráttunni. Vona innilega að þeim gangi allt í haginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já ég segi það sama. Vonandi ná stjórnarandstöðuflokkarnir því forskoti að geta myndað stjórn eftir kosningar. Og við viljum vera þar með Frjálslyndir. Ég er alveg viss um að við getum sameiginlega myndar Frjálslynda velferðarstjórn. Það greinir ekki mikið á milli þessara þriggja flokka, og þeir hafa sýnt það núna á síðustu dögum, að þeir eru meira samstíga en það sem aðgreinir þá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2007 kl. 17:28
Já, en hún heitir Siv ...
Berglind Steinsdóttir, 18.3.2007 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.