16.3.2007 | 09:49
VG og Samfylkingin saman í stjórn
Samkvæmt Mogganum í dag þá vilja flestir landsmenn að VG og Samfylkingin sitji saman í næstu ríkisstjórn. Þ.e. fari með völdin í landinu. Að sjálfsögðu hugnast okkur sem styðjum VG sá möguleiki hvað best. Þó er það ekki svo að aðrir flokkar séu útilokaðir ef þessir tveir flokkar ná ekki saman, en yfirlýsingar forystumanna VG eru á þá leið að fyrst muni þeir láta reyna á það til fullnustu að ná saman með Samfylkingunni. Nokkuð skýrt hvað menn vilja á þeim bænum.
Ef litið er t.d. til skrifa Árna Þórs Sigurðssonar hér á blogginu, þá er ekki neinum vafa undirorpið að svo er. Einnig vekur það athygli að í skrifum sínum heggur hann sjaldan eða aldrei til Samfylkingarinnar, svo nokkuð ljóst er að þar fylgir hugur máli.
Til að þessir tveir flokkar nái meirihluta, þurfa þeir eins og gefur að skilja að ná meirihluta fylgis kjósenda til sín. Og ekki nóg með það, heldur það miklu fylgi að traustur meirihluti verði á þingi. Sá trausti meirihluti næst ekki með tilflutningi á fylgi milli VG og Samfylkingarinnar, heldur með því að höggva í fylgi annarra stjórnmálaflokka. Þessu gera Árni Þór og fleiri í VG sér greinilega fyrir, og tala því með kurteisum og málefnalegum hætti til Samfylkingarinnar, enda ekki gott að vera á biðilsbuxunum með hnjóðsyrði á vör.
Vonandi munu sem flestir í Samfylkingunni einnig gera sér þetta ljóst, og tala með þeim hætti til VG eins og þeir vilji starfa með hreyfingunni. Þó að einstaka frambjóðendur Samfylkingarinnar í hugsanlegum baráttusætum hafi látið þung orð falla, er engin ástæða fyrir þá eða aðra að fara strax á taugum. Enda er það svo að hagsmunir þjóðarinnar hljóta að vera í fyrirrúmi en ekki einstaka frambjóðenda.
Þó svo færi að Samfylkingin yrði ekki stærra aflið í því samstarfi sem hér um ræðir, gæti hún engu að síður haft mjög mikil áhrif til hins betra fyrir land og lýð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.