15.3.2007 | 21:30
Opnaðu munninn Jens
Það að börn niður í eins árs séu með skemmdar tennur og mýmörg dæmi um börn sem eru þriggja ára séu með hættulegar sýkingar í munni vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á að kosta eftirlit og tannlækningar eru virkilega sláandi fréttir. Sérstaklega í ljósi þess að fyrir ekki svo mörgum árum var Ísland talið dæmi um það hvernig ætti að standa að tannvernd og tannheilsa barna með því besta sem þekktist í heiminum.
Í dag virðist sem að um mikla afturför sé að ræða í þessum efnum, og að sjálfsögðu bera þeir stjórnmálaflokkar sem ráðið hafa ríkjum undanfarin áratug fulla ábyrgð á því hvernig komið er. Já, það vantar ekki stóru orðin hjá framsókn og íhaldi þegar fulltrúar þessara flokka hreykja sér af því að svo og svo mikið sé vel gert í heilbrigðismálum og að almenn velsæld hafi aukist.
Miðað við þessar alvarlegu fréttir ættu þeir Geir og Jón, arftakar Karíusar og Baktusar, að fara ögn varlegar í yfirlýsingagleði sinni um hvað hér sé allt með miklum blóma. Ljóst er að svo er ekki á meðan fjöldi fólks hefur ekki efni á að láta huga að tannheilsu barna sinna. Það er einnig deginum ljósara að tannheilsa foreldra barna þar sem svona er komið hlýtur einnig að vera með versta móti, því flestir foreldrar láta heilsu barna sinna framar í forgangsröðina en sína eigin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.