14.3.2007 | 01:42
Húrra fyrir alþjóðavæðingunni.
Ósköp hljóta Indverjar þeir sem sáust í þætti á RÚV í gær og voru upp að mitti í lút og sýrubaði að vera hamingjusamir og þakklátir að fá að vinna fyrir 340kr. á dag (yfirvinna meðtalin) við að framleiða tau fyrir IKEA og Rúmfatalagerinn danska. Í kaupbæti fá þeir líka útbrot, öndunarfærasjúkdóma, krabbamein og styttri líftíma en ella svo nokkuð sé nefnt af kokteilblöndunni. Hamingja og þakklæti þeirra bænda sem fá afrennslið frá spuna- og eiturefnaverksmiðjunum í grunnvatnið og áveitur sínar hlýtur einnig að vera ótakmarkað.
En af hverju nefni ég hamingju og þakklæti verkafólks í sömu andrá og þessi mannréttindabrot sem stórfyrirtæki á vesturlöndum láta viðgangast og taka þátt í með beinum og óbeinum hætti og sýnd voru í imbanum í gær. Kannski vegna þess að frjálshyggjuliðið á Íslandi hefur notað það sem rök fyrir að fyrirtæki leita í sífellt auknum mæli til hinna s.k. þriðja heims landa eins og Indlands, til að láta verkafólk framleiða vörur sem ódýrast. Ekki þykir þessu liði það tiltökumál að aðbúnaður og vinnuskilyrði sé með þeim hætti að harðsvíruðustu þrælahöldurum fyrri tíma hefði jafnvel ofboðið.
Ég ætla rétt að vona að frjálshyggjuliðið hér heima hafi haft þessa skoðun sökum einfeldni og fávisku, en ekki af hreinræktaðri mannvonsku. Hafi haft skrifa ég, því að eftir að hafa horft á þennan þátt í sjónvarpinu í gær hljóta þeir sem predika að hamingja og þakklæti sé efst í huga þeirra sem þurfa að vinna við þessi skilyrði, að hugsa sig tvisvar um áður en þeir halda áfram að reyna að breiða út þetta líka fagnaðarerindið.
Í þættinum kom einnig fram áskorun til okkar neytenda í hinni ríku Evrópu að kaupa ekki vörur sem framleiddar eru með þessum hætti. Ég mun að minnsta kosti ekki kaupa rekkjuvoðir og handklæði framvegis án þess að athuga fyrst hvernig framleiðslunni er háttað. Ég held að við höfum öll efni á að greiða aðeins meira fyrir vöruna og tryggja þannig lágmarkskröfur um aðbúnað og laun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.