Ég sakna gamla SÍS

Þegar ég var unglingur átti ég heima vestur á Þingeyri við Dýrafjörð. Þar var kaupfélagið allt í öllu. Frystihús, saltfiskverkun, bræðsla, skreiðarverkun, útgerð, matvörubúð, vélsmiðja og bensínstöð var m.a. það sem kaupfélagið rak. Á þessum árum var mikil velmegun, nóg að gera fyrir alla og þurfti að flytja inn herskara fólks frá útlöndum til að ná að vinna aflann sem barst að landi. Svo margir voru t.d. Ástralarnir að verbúðin var nefnd Ástralía.

Þingeyri var ekkert einsdæmi hvað íslensk sjávarpláss varðar. Kaupfélögin voru víðast hvar sterk og héldu uppi atvinnustiginu í flestum þorpum. Hvort sem vel eða illa gekk í útgerð og fiskvinnslu fóru þau ekki burtu með fiskinn til að vinna hann annars staðar, heldur voru ávalt til staðar.

Rothöggið fyrir flest kaupfélög á landinu var greitt þegar SÍS var lagt niður eða skipt upp í einingar sem síðan voru seldar eða hirtar. Þar með hvarf hluti samtakamáttarins sem kaupfélögin bjuggu að, s.s. Innkaupadeildin, Skipadeildin og Sölusamtökin ef mig minnir rétt. Einnig hjálpaði SÍS gamli þeim kaupfélögum sem lentu í tímabundnum erfiðleikum. Allt fór þetta forgörðum á endanum.

Nú þegar illa gengur fyrir vestan er ekki úr vegi að minnast kaupfélagana, SÍS og samtakamáttarins með hlýhug. Ef þeirra hefði ekki notið við hefði sama ástand og nú er skapast fyrir löngu.  En kannski er ekki of seint að stofna nýtt SÍS.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband