10.3.2007 | 22:32
Þjóðin á þorskinn
Mér hefur alltaf þótt óskaplega vænt um þorskinn. Gæti verið vegna þess að í nokkur ár hafði ég lifibrauð mitt af því að vinna við að veiða þann gula, verka hann og koma ofan í maga neytenda, eða að munni þeirra öllu heldur. Svo er hann afskaplega góður til átu.
Því þykir mér ansi hart þegar einhverjir menn úti í bæ sem titla sig sem sérfræðinga í lögum, segja að vegna þess að Halldór Ásgrímsson og Co. settu á kvótakerfið á sínum tíma og útdeildu fiskveiðiheimildum til útgerðamanna, að hinir sömu útgerðamenn séu þá orðnir eigendur kvótans. Ég veit ekki til þess að neinn hafi gefið þeim kvótann. Enda segir í lögum að þorskurinn sé sameign þjóðarinnar, og hvorki Halldór Ásgrímsson eða aðrir höfðu leyfi til að taka þessa sameign og gefa hana frá sér til eigenda fiskiskipa.
Það er svo ekki mitt mál eða annarra Íslendinga hvort einhverjir fiskiskipaeigendur hafi keypt til sín eitthvað sem aðrir höfðu ekki heimild til að selja frá sér. Að koma svo núna fram með þau rök að þjóðin geti ekki átt neinar auðlindir, eru til þess eins að geta haldið áfram að veðsetja, kaupa, selja og braska með þjóðareign.
Það er kannski rétt að hugsa til þess að þjóðin var ekki of góð til þess að greiða fyrir með skattfé sínu úthald varðskipa þegar þurfti að verja fiskimiðin fyrir breskum togurum og herskipum. Á sama hátt er það þjóðin sem greiðir fyrir rannsóknir á fiskimiðum og fiskistofnum umhverfis landið.
Sem sagt þegar þarf að borga er þorskurinn eign þjóðarinnar, en þegar kemur að því að ráðstafa honum er það einkamál einhverra manna úti í bæ.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er hjartanlega sammála því sem kemur fram í þessum pistli og mun aldrei sætta mig við að eitthvert illþýði hafi í raun rænt mig og aðra þjóðfélagsþegna fiskveiðiauðlindinni. Í mínum augum er framkvæmd fisveiðistjórnunarlagnna eins og hver önnur mafíustarfsemi, slík er spillingin, yfirgangurinn og valdníðslan, að maður tali ekki um lögbrotin, í kringum þetta sóðakerfi.
Jóhannes Ragnarsson, 11.3.2007 kl. 08:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.